Vilja kyrrsetja eignir Stoða

Að beiðni skattrannsóknarstjóra var í gær farið fram á kyrrsetningu eigna Stoða  að upphæð 650 milljónir króna vegna fyrirhugaðrar endurákvörðunar skatta félagsins vegna rekstaráranna 2005-2007. 

Fram kemur í yfirlýsingu frá Stoðum, að fyrirtækið hafi framvísað við fyrirtökuna fullnægjandi tryggingum fyrir samsvarandi upphæð í formi reiðufjár, með fyrirvara um lögmæti aðfararinnar. Stoðir muni krefjast þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að kyrrsetningarbeiðninni verði synjað.

Í yfirlýsingunni segir, að bókhald og skattskil Stoða hafi verið í skoðun hjá skattayfirvöldum í meira en tvö ár en félaginu hafi ekki borist neinar upplýsingar frá skattayfirvöldum um málsatvik eða niðurstöður rannsóknarinnar. Af kyrrsetningarbeiðninni megi þó ráða að skattrannsóknarstjóri telji að Stoðir hafi vanframtalið virðisaukaskatt vegna aðkeyptrar starfsemi erlendis frá, að mestu frá eigin dótturfélögum erlendis. 

Í yfirlýsingunni segist stjórn Stoða telja, að skattayfirvöld hafi gengið afar harkalega fram með kröfu sinni um kyrrsetningu. Því sé haldið fram í kyrrsetningarbeiðni, að kyrrsetning eigna sé nauðsynleg þar sem hætta þyki á að eignum verði skotið undan. Um 80% hlutafjár Stoða er í eigu Glitnis, Arion banka og NBI – Landsbankans.  Stjórn Stoða, sem kjörin var í kjölfar yfirtöku lánardrottna á félaginu sl. sumar, er skipuð fulltrúum þessara aðila.

„Eignir Stoða um sl. áramót námu 33,5 milljörðum króna en skuldir voru 10 milljarðar króna.  Eignir Stoða umfram skuldir voru því 23,5 milljarðar króna um sl. áramót og eiginfjárhlutfall um 70%. Skattayfirvöld hafa enga ástæðu til að ætla að félagið eða eigendur þess muni skjóta undan eignum til að komast hjá greiðslu mögulegrar endurálagningar á sköttum," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert