Hraun rennur til norðurs

Reuters

Gosið við Eyjafjallajökul er blandgos, þar sem hraungosið er meira en sprengigosið. Gosmökkur hefur verið dekkri og meiri um sig undanfarna tvo til þrjá daga en var vikuna á undan. Jafnframt hefur gjóskufall aukist í nágrenni eldfjallsins. Á sama tíma hefur hraun haldið áfram að renna til norðurs.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að miðað við stöðu gufumakkarins sem rísi frá hrauninu þar sem það mæti ísnum, hafi jaðar þess verið um miðjan dag í um 850 m hæð á Gígjökli, um 3 km norðan gígsins. Gufumekkir frá jökuljaðri kl. 19:40 í gærkvöldi hafi bent til að hraun hafi jafnvel náð lengra.

Þá segir að erfitt sé að leggja mat á hraunrennslið. Gróf ágiskun á flæði hrauns sé 20 m3 á sekúndu eða 50 tonn á sekúndu. Matið sé byggt á lengd og breidd hraunstraums (stærð sigkatla) í Gígjökli annarsvegar og rennsli vatns hinsvegar.

Ekkert bendir til gosloka

Gjóskugosið sé talið vera mun minna, 10-20 tonn/s. Virkni sprengigossins hafi heldur aukist undanfarna sólarhringa, en óljóst sé hvort hraunflæðið hafi aukist. Ekkert bendi til gosloka.

Fram til kl. 16 í gær var rennsli í Markarfljóti (18 km frá Gígjökli), minna en 1. maí. Milli kl. 16 og 17 jókst rennsli tímabundið og var svipað og í fyrri flóðum þann 30. apríl. Eftir klukkan 19:40 sýndi vefmyndavél gufuský við jaðar Gígjökuls. Gufur rísa jafnframt upp af aurunum fyrir framan jökuljaðarinn og gefa þannig til kynna heitt bræðsluvatn.

Sprengivirkni virðist heldur hafa aukist enda gosmökkur dekkri og meiri um sig undanfarna tvo til þrjá daga en var vikuna á undan. Jafnframt hefur gjóskufall aukist í nágrenni eldfjallsins. Upphleðsla klepragígs heldur áfram. Hraun rennur frá gígnum til norðurs og fer mestur hluti af orku þess í að bræða ís. Gjá umhverfis hraunið lengist til norðurs. Mikinn gufumökk leggur af hrauninu.

Gosórói jókst í gær. Aukningin gæti verið vegna samspils íss og hrauns í Gígjökli eða breytinga í gosrás. Engir jarðskjálftar mældust við Eyjafjallajökul í gær. Ekkert bendir til gosloka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert