Lóðaskil gætu kostað borgina milljarða

Nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu
Nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu mbl.is/Heddi

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi sl. fimmtudag Reykjavíkurborg til að taka við atvinnulóðum þriggja fyrirtækja. Fyrirtækin, Eirvík-heimilistæki ehf., Búgarður Invest ehf. og Vídd ehf., höfðu fengið úthlutaðar lóðir við Lambhagaveg haustið 2007.

Vegna breyttra aðstæðna á lánamörkuðum og minni uppbyggingar á svæðinu en gert hafði verið ráð fyrir vildu fyrirtækin skila lóðunum í september og október 2008. Borgin neitaði að taka við lóðunum, þrátt fyrir að hafa skömmu áður tekið við fjórum lóðum á þessu sama svæði og greitt til baka opinber gjöld vegna þeirra.

Í niðurstöðu Héraðsdóms segir að umrædd fyrirtæki hafi á þeim tíma sem þau skiluðu lóðunum haft rétt til þess á grundvelli venju borgarinnar í sambærilegum málum. Borgaryfirvöld geti ekki látið breytingu, sem síðar var samþykkt í borgarráði, gilda afturvirkt um umræddar lóðir.

Borgin hefur þegar tekið ákvörðun um að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Í hádegisfréttum RÚV í gær var haft eftir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra að óábyrgt væri af borgaryfirvöldum að ganga ekki úr skugga um hvort þeim bæri að taka við lóðunum enda gæti kostnaður borgarinnar orðið umtalsverður.

Í endurskoðunarskýrslu borgarinnar fyrir árið 2009 kemur fram að tapi borgin málum gegn lóðarhöfum sem vilja skila lóðum sínum gæti hún þurft að greiða þeim allt að fimm milljörðum króna.

Sjá nánar um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert