Millilandaflugið flyst norður

Öskudreifingarspá frá Metoffice í Bretlandi sem gildir kl. 18 í …
Öskudreifingarspá frá Metoffice í Bretlandi sem gildir kl. 18 í dag. Algjört flugbann er á svarta svæðinu upp á 20 þúsund fetum.

Flugvöllunum í Keflavík og Reykjavík hefur verið lokað vegna öskunnar frá Eyjafjallajökli. Svarta svæðið svonefnda, sem flugmálayfirvöld skilgreina sem bannsvæði fyrir blindflug, liggur nú yfir suðvesturhorni landsins. Akureyrarflugvöllur mun taka við millilandafluginu og aðgerðastjórn flyst þangað, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur hjá Isavia, áður Flugstoðum.

Miðað við spár um öskudreifingarsvæðið næstu daga er útlit fyrir að Akureyrarflugvöllur verði miðstoð millilandaflugs næstu daga, með möguleika á að nota Egilsstaðaflugvöll líka. Spárnar geta þó breyst með skömmum fyrirvara.

Mikil umferð um íslenska flugstjórnarsvæðið

Þar sem öskudreifingarsvæðið er komið langt suður eftir N-Atlantshafi og að nær meginlandi Evrópu en áður hefur flugumferð yfir íslenska flugstjórnarsvæðið aukist. Hjördís reiknar með að þannig verði það næstu daga og er mikill viðbúnaður af hálfu Isavia af þeim sökum. Er umferðin slík að efasemdir eru um að Ísland geti annað allri eftirspurninni og hætt við að fella þurfi niður einhverjar flugferðir yfir hafið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert