Gæsluvarðhaldsúrskurðir staðfestir

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur er búinn að staðfesta gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, og Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Banque Havilland. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari vegna efnahagshrunsins, í samtali við blaðamann mbl.is, en áður hafði mbl.is sagt frá því eftir heimildum, að dómurinn hefði staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíku.

Þau Hjördís Hákonardóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson kváðu upp úrskurðinn. Mbl.is hefur heimildir fyrir því að einn dómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, hafi skilað sératkvæði. Ólafur Þór, sem staddur er á flugvellinum í Glasgow, staðfesti að svo væri en sagðist jafnframt ekki hafa séð úrskurðinn eða forsendur hans.

Hann segir að með ákvörðun sinni hafi dómurinn tekið undir þau rök sem færð hafi verið af hálfu ákæruvaldsins, fyrir því að úrskurða bæri þá Hreiðar Má og Magnús í gæsluvarðhald.

Á föstudag var Hreiðar Már úrskurðaður í gæsluvarðhald í tólf daga og Magnús í sjö daga, í Héraðsdómi Reykjavíkur, að beiðni embættis sérstaks saksóknara.

Ólafur Þór vildi ekkert tjá sig um þær heimildir fréttastofu Rúv, að Sigurður Einarsson hafi beðið griða fyrir embættinu og sett skilyrði fyrir því að koma í yfirheyrslur, svo sem að bíða eftir því að Hæstiréttur kvæði upp úrskurð sinn um gæsluvarðhald Hreiðars og Magnúsar. Hann neitaði alfarið að tjá sig um samskipti embættisins við Sigurð Einarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert