Vill að ákæra verði dregin til baka

Mótmælendur nú fyrir utan Alþingishúsið.
Mótmælendur nú fyrir utan Alþingishúsið. mbl.is/RAX

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, lagði á Alþingi fram í dag þingsályktunartillögu þar sem mælt er til þess að skrifstofustjóra Alþingis verði falið að fara þess á leit við ríkissaksóknara að ákæra á hendur níu mótmælendum fyrir að hafa 8. desember 2008 rofið friðhelgi og fundarfrið Alþingis verði dregin til baka og einnig ákæra um húsbrot.

Í greinargerð með ályktuninni segir m.a. að í máli nímenninganna sem nú eru kærðir fyrir að ráðast gegn Alþingi hafi verið bent á að allmörg dæmi séu um að efnt hafi verið til mótmælaaðgerða í og við þingpalla án þess að slíkum aðgerðum hafi fylgt sérstök eftirmál.

„Má þar nefna mótmæli ýmissa hagsmunasamtaka, svo sem verkalýðs- og stúdentahreyfinga, þar sem störf þingsins voru trufluð. Einn núverandi ráðherra tók meira að segja þátt í slíkum aðgerðum á háskólaárum sínum.

Þegar EES-samningurinn var formlega samþykktur á Alþingi mættu fulltrúar ungliðahreyfingar eins stjórnmálaflokksins meira að segja á þingpalla með eftirlíkingar af hríðskotabyssum og lýstu því yfir að um valdatöku væri að ræða án þess að nokkrum kæmi til hugar að kæra hópinn fyrir árás á þingið. Misræmi sem þetta er til þess fallið að grafa undan tiltrú á réttarkerfinu,“ segir í ályktuninni.

Þar er einnig bent á að í dómsmáli níumenningana sé kært fyrir árás á Alþingi, en það ákvæði hafi aðeins einu sinni verið virkjað, í kjölfar mótmæla vegna inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 30. mars 1949.

„Þann dag kröfðust mótmælendur og verkalýðsfélögin í Reykjavík þess að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Til átaka kom við Alþingishúsið og í kjölfarið var hópur manna dæmdur til harðra refsinga á óljósum grundvelli. Menn í hópnum misstu til að mynda kosningarétt og kjörgengi svo árum skipti, auk þess sem margir hlutu fangelsisdóma.

Dómarnir yfir mótmælendunum 30. mars 1949 voru slæmir að öllu leyti. Þeir voru almennt álitnir pólitískir og gerðu því það eitt að draga úr tiltrú hluta fólks á réttarkerfinu sem hlutlausri stofnun. Þá, líkt og nú, leit enginn mótmælenda svo á að um væri að ræða árás á þingið – þvert á móti töldu báðir hópar sig vera að verja þingið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert