Stefnan í höndum lögmanna Jóns Ásgeirs

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. mbl.is/Golli

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, staðfestir að búið sé að birta stefnu um kyrrsetningu eigna á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Hún segir í samtali við mbl.is að lögmenn Jóns Ásgeirs í Bretlandi hafi fengið stefnuna í hendur klukkan 14 að breskum tíma (13 að íslenskum tíma) í dag.

„Ég get staðfest það að það er búið að birta honum stefnuna. Og hann er búinn að leita til lögmanna í Bretlandi um málsvörn,“ segir Steinunn.

„Þetta hefur verið komið til hans lögmanna sem geta tekið við þessu fyrir hans hönd [...] Þetta telst fullnægjandi,“ segir hún. Jóni Ásgeiri var því ekki birt stefnan persónulega. Aðspurð segist Steinunn ekki vita hvar Jón Ásgeir haldi til, ekki hafi náðst í hann.

Jón Ásgeir hefur 48 klukkustundir til að skila upplýsingum um eignir sínar, frá því honum hefur verið birt stefna. Geri hann það ekki, eða gefi upp rangar upplýsingar, þá á hann yfir höfði sér fangelsi.

Steinunn bendir á að þar sem fresturinn renni út á laugardaginn, þá sé mögulegt að lögmenn Jóns Ásgeirs fari fram á að fresturinn verði lengdur. Gæti líklega fengið frest fram á mánudag.

„Við munum nú samt halda því fram að hann eigi að skila þessu innan þessara 48 klukkustunda,“ segir Steinunn. Hún tekur hins vegar fram að lögmenn Jóns Ásgeirs hafi ekki farið fram á að fresturinn verði lengdur.

„Svo munum við fara yfir það og taka ákvörðun um næstu skref,“ segir Steinunn spurð út í framhald mála, skili Jón Ásgeir eignaupplýsingunum innan tilsetts tíma.

Geri hann það ekki megi hann búast því að verða handtekinn. „Þetta eru viðurlög sem dómstóllinn getur gripið til.“

Næsta fyrirtaka í málinu verður 28. maí nk. 

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert