Þinghald verði opið

Mikill mannfjöldi var í Hérðasdómi í Reykjavík í gær.
Mikill mannfjöldi var í Hérðasdómi í Reykjavík í gær. mbl.is/Ómar

Ragnar Aðalsteinsson, verjandi tveggja einstaklinga af níu sem hafa verið ákærðir fyrir brot gegn Alþingi, segir að það sé réttur sakborninganna að almenningur fái að fylgjast með réttarhöldunum. Dómstjóri hefur sagt að það komi til álita að hafa þinghaldið lokað. Þessu hafnar Ragnar.

„Það þarf bara að halda þinghald í þessu máli án lögregluviðurvistar. Það er nú allt og sumt. Þá er þetta búið,“ segir Ragnar.

Hann kveðst hafa skrifað dómstjóra og haft uppi andmæli vegna málsins, en dómarinn sleit þinghaldi vegna óláta í gær.

Ragnar gerði þá kröfu í réttarhaldinu í gær um að kveðinn verði upp formlegur úrskurður um lokunina, sem hann hyggst svo kæra til Hæstaréttar. „Dómarinn tók við bókuninni. Tók enga ákvörðun á grundvelli hennar, sem honum bar að gera, og sleit þinginu. Og boðaði ekki nýtt þing,“ segir Ragnar. Á meðan sé málið í lausu lofti.

Verður til úr engu

Hann segir að með aðgerðum sínum hafi dómarinn tekið ákvörðun að loka réttarhaldinu. „Ég verð að ætla það að það hafi verið dómarinn, þó að ég viti um afskipti dómstjórans. Sem eru óviðurkvæmileg og ekki í samræmi við lög,“ segir Ragnar.

„Þessi atburðir sem eru að gerast, þeir verða til úr engu. Fyrst var friðsamlegt réttarhald sem stóð yfir í meira en klukkutíma. 90 til 95 manns í sal. Algjörlega friðsamlegt. Hvort að þá voru lögreglumenn á staðnum veit ég ekki. Ég sá þá ekki og þeir birtust ekki, enda ekki tilefni til. Næst þegar við komum, þá voru verulega færri [áhorfendur]. Þá var búið að smala saman tugum lögreglumanna. Þannig byrjar þetta. Þetta er algjörlega óskiljanlegt,“ segir Ragnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert