Meira öskufall í Eyjum

Talsverð aska hefur fallið í Vestmannaeyjum frá því í gær.
Talsverð aska hefur fallið í Vestmannaeyjum frá því í gær. mbl.is/Júlíus G. Ingason

Almannavarnanefnd Vestmannaeyja segir að þar sem spáð sé áframhaldandi norð- og norðaustlægum áttum um helgina séu líkur á áframhaldandi öskufalli í Vestmannaeyjum frá eldsumbrotunum í Eyjafjallajökli. Umtalsvert öskufall hefur verið í Vestmannaeyjum síðasta sólarhringinn og öskufjúk er nú í bænum.

Fram kemur á vefnum Eyjafréttum, að  þeir sem reyndu að skola hús sín í gær hafi fengið að kynnast því hvernig öskulagið verður þegar það kemst í snertingu við vatn.  Saman myndi það þykka leðju, tjörukennda sem erfitt geti verið að losna við. 

Beinir Guðmundur Þ. B. Ólafsson, framkvæmdastjóri Áhaldahúss Vestmannaeyja, þeim tilmælum til fólks að aftengja þakniðurföll frá holræsakerfi þar sem það á við.

„Þegar vatn kemst í öskuna verður hún mikil fyrirstaða og rennur lítið, verður nánast eins og steypa og því mikil hætta á stíflum ef hún fer í holræsakerfi húsa.  Best er að aftengja þakniðurföllin við þakskegg, en ef þau eru aftengd við jörðu er nausynlegt að loka niðurfallinu svo rottur komist ekki upp, ef þær eru á annað borð í holræsakerfum á viðkomandi svæði," sagði Guðmundur.

Almannavarnanefnd Vestmannaeyja bendir fólki á, að unnt er að nálgast rykgrímur á lögreglustöðinni og á Heilsugæslunni á opnunartíma.

Búfjáreigendum er bent á að brynna búfénaði vel í þessu ástandi og þeir sem eiga þess kost að gefa fénaði sínum á húsi geri það fremur en að beita á haga. Þá bendir nefndin fólki á að afla sér upplýsinga um áhrif öskufalls á fólk og búfénað á heimasíðu landlæknis og matvælastofnunar.

Fólki með öndunarfærasjúkdóma er ráðlagt að halda sig innandyra á meðan ösku gætir í andrúmslofti og í miklu öskufalli eða fjúki er það besta ráðið fyrir alla að vera ekki utandyra að óþörfu til að forðast óþægindi. Bílstjórum er bent á að aka rólega um bæinn til þess að þyrla ekki upp ösku að óþörfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert