Óviðunandi að erlent fyrirtæki eignist HS Orku

HS Orka.
HS Orka. mbl.is/Ómar

Þingflokkur Vinstri grænna beinir því til ríkisstjórnarinnar að skoða alla möguleika til að vinda ofan af einkavæðingu HS Orku og tryggja orkuauðlindirnar og orkufyrirtækin varanlega í almannaeign.

Þingflokkurinn telur það óviðunandi stöðu sem nú blasir við að HS orka, þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins, fari undir yfirráð erlends einkafyrirtækis, segir í jafnframt í tilkynningu frá VG. 

Hún er eftirfarandi:

„Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ítrekar þá grundvallarstefnu  sína að allar auðlindir þjóðarinnar eigi að vera í sameign hennar.  Þingflokkurinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að skoða alla möguleika til að vinda ofan af einkavæðingu HS Orku og tryggja orkuauðlindirnar og orkufyrirtækin varanlega í almannaeign.

Aðdraganda kaupa Magma Energy á hlut Geysir Green Energy (GGE) má rekja til ákvörðunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar árið 2007 um sölu á 15,2% hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja (HS) en þá var opinberum orkufyrirtæki meinað að bjóða í hann. Ásetningurinn var því frá upphafi að færa HS úr samfélagslegri eigu  til einkaaðila. Söluferlið leiddi af sér miklar hræringar á eignarhaldi HS sem staðið hefur fram á þennan dag. Þá ákvað bæjarstjórn Reykjanesbæjar, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, að selja allan hlut bæjarins í HS Orku til GGE sem nú hefur selt hann til sænsks skúffufyritækis í eigu kanadíska fyrirtækisins Magna Energy. Í lok síðastliðins sumars ákvað meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur að selja hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku til Magma. Nái samningurinn fram að ganga mun Magma Energy eignast  98% í HS Orku, með 65 ára nýtingarrétti og forgangsrétt til framlengingar um 65 ár að auki. Þessa fordæmalausu samninga þarf að taka upp tafarlaust.

Þingflokkurinn telur það óviðunandi stöðu sem nú blasir við að HS orka, þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins, fari undir yfirráð erlends einkafyrirtækis. Minnt er á að allir flokkar á Alþingi, aðrir en Sjálfstæðisflokkurinn, studdu stjórnarskrárbreytingu fyrir síðustu Alþingiskosningar þess efnis að allar auðlindir yrðu þjóðareign. Þingflokkurinn væntir því víðtæks stuðnings við þessa stefnu og nauðsynlegar aðgerðir til þess að framfylgja henni og er sannfærður um víðtækan stuðning þjóðarinnar í því efni.
 
Vinstri græn hafa frá upphafi lagt á það áherslu að samfélagslega mikilvæg fyrirtæki, líkt og orkufyrirtæki, hitaveitur og vatnsveitur, séu undir samfélagslegum yfirráðum, sjálfbær nýting þeirra tryggð og renta af þeim renni til samfélagsins. Sú stefna byggist á því að til þess að tryggja að hagsmunir almennings séu ávallt hafðir að leiðarljósi þarf að vera lýðræðisleg aðkoma að stjórnum þeirra.

Þingflokkurinn telur fulla þörf á að rannsaka allt þetta ferli og lýsir jafnframt yfir fullum stuðningi við framkomnar hugmyndir oddvita frambjóðanda flokksins í Grindavík, Hafnarfirði og Reykjanesbæ um mögulegt dómsmál vegna kaupa Magma og tillögu um að nýtingaréttur á landi sveitarfélaga sé nýttur af orkufyrirtækjum sem eru á forræði opinberra aðila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert