Tóku myndir af utanvegaakstri

Utanvegaakstur á torfæruhjólum er vandamál víða um land, jafnt á hálendinu sem á fjöllum og fellum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Ekki þarf að leita lengi á vefnum til að finna ljósmyndir sem mótorhjólamenn hafa tekið af sér við utanvegaakstur. Einnig er þar fjöldi mynda sem orka mjög tvímælis. Jafnframt verður að hafa í huga að þeir sem sýna af sér versta framferðið og aka upp um fjöll og firnindi, utan allra vega eða stíga, eru ólíklegri en aðrir  til að birta af sér myndir af utanvegaakstrinum á vefnum.

Dæmi um utanvegaakstur má meðal annars sjá á myndbandi sem danskir mótorhjólamenn tóku af ferð sinni um hálendi Íslands í fyrra, og settu inn á myndbandsvefinn YouTube. Myndbandið var reyndar fjarlægt af YouTube eftir að Morgunblaðið spurðist fyrir um málið

Myndbandið er alls um 10 mínútna langt. Meginhluti þess sýnir akstur eftir vegum og vegslóðum en undir lok myndbandsins sést greinlega hvernig mótorhjólamennirnir þenja hjólin sín upp bratta brekku. Á öðrum stað á myndbandinu sést þegar þeir aka yfir mel þar sem enginn vegur eða stígur er sjáanlegur.

Það vekur sérstaka athygli að myndirnar voru teknar í skipulagðri ferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Blue Mountain.

Sverrir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Mountain, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að í þeim myndbrotum sem hér eru sýnd, hefði vissulega verið um utanvegaakstur að ræða. Í þessum tilvikum hefðu viðskiptavinir fyrirtækisins ekið þarna upp í óþökk fararstjóra Blue Mountain sem hefði þurft að ná í þá. Slíkt gerðist stundum þegar kraftmiklir ungir menn væru á ferð. Fyrirtækið stundaði ábyrga ferðamennsku og gætti þess af fremsta megni að viðskiptavinir yllu ekki skemmdum.

Sverrir sagði einnig að erlendir ferðamenn héldu oft að hér á landi mætti aka út um allar trissur og slíkan misskilning þyrfti að leiðrétta.  Myndbandið sem hér um ræðir er augljóslega ekki til að bæta ástandið.

Ýmislegt fleira orkar tvímælis á myndbandinu, til dæmis akstur dönsku mótorhjólamannanna upp bratta brekku við veg norðvestan við Langasjó. Sverrir sagði að hér væri ekki um utanvegaakstur að ræða, því greinileg slóð eftir jeppamenn og fleiri lægi þar upp. Brekkan er reyndar fyrir utan þennan veg, en þar er engu að síður mikið ekið, sagði Sverrir.

Vegurinn norðvestan við Langasjó er reyndar ekki til á skipulagsuppdrætti sveitarfélagsins og fannst ekki heldur á kortum Landmælinga eða á þeim kortum Máls og menningar sem leitað var á í gær. Vegurinn er hins vegar greinilegur á GPS korti sem íslenska fyrirtækið Samsýn bjó til.

Á vef annars ferðaþjónustufyrirtækis í þessum bransa, Enduro Iceland, sést m.a. þegar mótorhjólum er ekið eftir kindagötu eða hestastíg í Þjórsárdal. Akstur utan vega er bannaður, eins og flestir vita, en margir mótorhjólmenn halda þeim málstað á lofti að þeim sé heimilt að aka eftir kindagötum og fleiri stígum í óbyggðum, jafnvel þó þeir séu hvergi merktir á korti sem vegir fyrir vélknúna umferð.

Morgunblaðið hefur frá því á mánudag fjallað um vanda vegna utanvegaaksturs og mun halda því áfram næstu daga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert