Dómur þyngdur um eitt og hálft ár

Hæstiréttur dæmdi í dag rétt rúmlega fertugan bandarískan ríkisborgara, Andrew Harris McElroy, í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn íslenskri stúlku. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt manninn í hálfs árs fangelsi. Bæti til konunnar voru einnig hækkaðar, um 200 þúsund, og skal maðurinn því greiða henni 800 þúsund krónur.

Stúlkan greindi lögreglu frá því að hún hefði farið ásamt vinkonum sínum að skemmta sér á bar við hliðina á Hótel Borg. Hefði hún hitt þar tvo karlmenn og þrjár konur úr hópi útlendinga sem þar hefði verið staddur. Hefðu mál þróast þannig að hún hefði farið með öðrum mannanna upp á hótelherbergi hans. Hefðu þau haft kynmök og hún sofnað eftir það.

Stuttu síðar vaknaði stúlkan við að maður væri að hafa við hana kynmök. Hefði hún haldið að það væri sá maður sem hún hafði farið með upp á herbergið en uppgötvað fljótlega að svo var ekki. Hefði hún þá orðið mjög æst og öskrað. Hefði hún komist inn á baðherbergi og læst þar að sér. Hefði hún svo kíkt fram stuttu síðar, þegar hún heyrði ekkert hljóð, og maðurinn þá verið farinn á brott.

Maðurinn sem var dæmdur fyrir kynferðisbrotið neitaði í fyrstu að hafa haft kynmök við stúlkuna en síðar sagði hann að kunningi hans, sem hafði fyrst kynmök við stúlkuna hafi sagt honum að stúlkan vildi einnig hafa mök við hann.

Sagði hann að kynmökin hafi verið með vilja hennar og hún hafi vitað allan tímann að um annan mann væri að ræða.

Félagi mannsins neitaði því hins vegar að hafa sagt að stúlkan vildi hafa kynmök við hinn manninn og var ekki dreginn efi á þann framburð hans.

Verulegar afleiðingar fyrir stúlkuna

Maðurinn var ekki sakfelldur fyrir nauðgun en brot gegn blygðunarsemi. Hann var talinn hafa haft samræði gegn vilja stúlkunnar og við það notfært sér að hún gat hvorki spornað við né skilið þýðingu verknaðarins þar sem hún taldi að um annan mann væri að ræða.

Í dómi Hæstaréttar segir að brotið hafiverið alvarlegt og beinst gegn mikilvægum hagsmunum. Það hafi eftir gögnum málsins haft í för með sér verulegar afleiðingar fyrir stúlkuna. Með hliðsjón af þeim gögnum sem lágu fyrir um afleiðingar brotsins fyrir andlega hagi stúlkunnar voru bætur til hennar einnig hækkaðar.

Í sálfræðimati sem gert var á stúlkunni segir að fyrir atburðinn hafi hún verið sjálfsörugg, glaðvær og félagslynd stúlka, með þá vissu að hún gæti tekist á við flesta hluti og óhrædd við gagnrýni annarra. Eftir atburðinn sé hún hins vegar kvíðin, döpur og óörugg, á varðbergi gagnvart öðru fólki og óttast gagnrýni þess. „Það sem [stúlkan] upplifði áður sem áskorun og ögrun upplifir hún nú sem ógn og hættu. Það áfall sem [hún] varð fyrir hefur haft víðtæk áhrif á ýmsa þætti í lífi hennar: starf, tengsl við vini og fjölskyldu, áhugamál, almenna lífshamingju og getu til að takast á við lífið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert