Vilja flýta framkvæmdum vegna eldgoss

Hvolsvöllur.
Hvolsvöllur. www.mats.is

Rætt hefur verið við verktaka á Hvolsvelli sem standa að byggingu fjölbýlishúss og raðhúss um að flýta vinnu sinni. Að sögn sveitarstjóra er það gert svo hægt verði bjóða upp á íbúðir, komi til þess að íbúar á helsta áhrifasvæði Eyjafjallajökuls gefist upp vegna eldgossins. Vel hefur verið tekið í erindið.

Lítið sem ekkert framboð er af húsnæði á Hvolsvelli en um tíu íbúðir í byggingu. Að sögn Elvars Eyvindssonar, sveitarstjóra Rangárþings eystra, vill sveitarstjórnin hafa vaðið fyrir neðan sig. „Ef að það verður óíbúðarhæft einhvers staðar eins og var eiginlega um daginn þegar mesti mökkurinn var viljum við geta boðið upp á þetta, s.s. ef þetta verður viðvarandi vandamál.“

Elvar segir að um sé að ræða einkaaðila sem haft hafi verið samband við. Þeim verði tryggð ákveðinn leiga og með því móti geti þeir klárað framkvæmdirnar. Húsnæðið hefur verið í byggingu í nokkurn tíma og vegna ástandsins á íbúðarmarkaði gengið hægt. Ef af verður getur húsnæðið hins vegar verið tilbúið strax í ágúst nk. „Þetta er á góðu róli enda eru framkvæmdir nokkuð langt á veg komnar.“

Auk þess sem sveitastjórnin telur nauðsynlegt að hafa íbúðir til taks, s.s. til útleigu gefist bændur upp á ástandinu vegna eldgossins, er ákvörðun sveitastjórnarinnar einnig atvinnuskapandi, enda einsýnt að verktakar þurfi að ráða menn til að ljúka við framkvæmdirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert