Varpi ekki skugga á 17. júní

Frá hátíðarhöldum 17. júní í Reykjavík.
Frá hátíðarhöldum 17. júní í Reykjavík.

Í bókun, sem sex af sjö fundarmönnum á fundi Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur tóku undir í dag, er þeirri ósk beint til ríkisstjórnar Íslands að sjá til þess að skugga verði ekki varpað á hátíðarhöldin 17. júní með því að ákveða þann dag að hefja aðildarviðræður Evrópusambandsins og Íslands.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að samninganefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu vonast til að leiðtogaráð sambandsins ákveði á lýðveldisdegi Íslendinga að hefja aðildarviðræður. Ráðið fundar yfirleitt fjórum sinnum á ári og hefur næsti fundur þess verið boðaður 17. júní.

Á fundi ÍTR í dag var lögð fram bókun frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni, fulltrúa Samfylkingarinnar í ráðinu. Er bókunin eftirfarandi:

Þeirri ósk er beint til Ríkisstjórnar Íslands að sjá til þess að skugga verði ekki varpað á hátíðarhöld á þjóðhátíðardegi Íslendinga með því að að ákveðið verði að hefja aðildarviðræður á milli Íslands og Evrópusambandsins á þeim degi. Hér er um viðkvæmt deilumál að ræða og minna má á að meirihluti þjóðarinnar hefur lýst sig andvígan aðild að sambandinu.

Undir þessa bókun tóku aðrir fulltrúar í ráðinu nema Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hún lagði fram eftirfarandi bókun: 

ÍTR er fáránlegur vettvangur til að ræða utanríkismál, hvað þá hvenær ESB heldur fundi sína. 17. júní á að vera dagur barnanna í borginni - ekki andstæðra fylkinga í Evrópumálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert