Höfundur hótunar gefi sig fram

Melaskóli í Reykjavík
Melaskóli í Reykjavík mbl.is/Júlíus

Björn Pétursson, skólastjóri Melaskóla, telur mestu máli skipta að sá sem sagðist mundi sprengja skólann ef 1.000 notendur Facebook skráðu sig á tiltekna síðu, gefi sig fram, Björn hefur leitað til lögreglunnar og einnig skrifað foreldrum barna í skólanum vegna málsins.

Björn kvaðst nú laust eftir hádegið ekki hafa fengið nein viðbrögð við bréfinu sem hann sendi í morgun. Í bréfinu kemur m.a. fram að hann hafi haft samband við lögregluna vegna málsins og að hún sé að kanna það. 

„Málið er í höndum lögreglunnar og hún er að kanna málið,“ sagði Björn. „Mér finnst skipta mestu máli að sá sem gerði þetta komi fram og lýsi því yfir að þetta sé grín. Við erum með ung börn, niður í sex ára, og þetta er ekkert sniðugt.“

Nokkuð á 13. hundrað notenda Facebook samskiptasíðunnar höfðu nú eftir hádegið lýst velþóknun á síðu þar sem stofnandi skrifaði skilaboðin „ef 1000 joina þá sprengi ég  melaskóla :)“. Brosmerkið í lok setningarinnar geta gefið til kynna að ekki fylgi endilega hugur máli, en skilaboðin eru engu að síður skreytt með mynd af öflugri sprengingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert