Eldgosinu að ljúka og núna halda menn ótrauðir áfram

Sigurður Grétar Ottósson, bóndi á Ásólfsskála, og kýrin Svala. Bústörfin …
Sigurður Grétar Ottósson, bóndi á Ásólfsskála, og kýrin Svala. Bústörfin eru nú komin á fullt eftir að hafa legið í láginni meðan gosið gekk yfir. mbl.is/Sigurður Bogi

Þrátt fyrir að eldgosinu í Eyjafjallajökli virðist lokið taka íbúar á svæðinu fréttum af slíku með mikilli varúð. Þetta kom glöggt fram þegar Morgunblaðið ræddi í gær við fólk undir Eyjafjöllum.

Er þá vísað til sagna af gosinu 1821 til 1823 sem stundum lét ekkert á sér kræla svo mánuðum skipti en tók sig svo upp aftur af tvíefldum krafti.

En þrátt fyrir að fólk beri enn kvíðboga gagnvart því að hamfarirnar séu ekki úti eru þó verk víða komin á fullt; bæði hreinsunarstarf og búverk sem beðið hafa meðan hamfarirnar gengu yfir.

„Núna halda menn ótrauðir áfram. Hér þarf að ganga í þau vorverk sem bíða enda hefur gosið tafið okkur,“ sagði Sigurður Grétar Ottósson, bóndi á Ásólfsskála undir Vestur-Eyjafjöllum, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær. Þar á bæ var verið að sópa hlaðið og dytta að ýmsu heimafyrir, eins og aðkallandi er þar sem ferðaþjónusta er stunduð. Búskapur er hins vegar það sem bændur á Ásólfsskála byggja afkomu sína á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert