Móðgun við Húsvíkinga

Álver Norðuráls í Hvalfirði. Gunnlaugur segir marga Húsvíkinga líta svo …
Álver Norðuráls í Hvalfirði. Gunnlaugur segir marga Húsvíkinga líta svo á að fyrirhugað álver Alcoa sé besti kosturinn í atvinnuuppbyggingunni fram undan. Árni Sæberg

„Þessi fundur var móðgun í okkar garð og ekkert annað,“ segir Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings, um ummæli Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um fyrirhugaða atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Gunnlaugur telur Katrínu hafa sýnt Húsvíkingum fádæma ókurteisi á fundi um málið í gær.

Gunnlaugur telur þau áform iðnaðarráðherra að kanna fleiri mögulega samstarfsaðila en Alcoa andstætt samkomulaginu sem gert hafi verið um uppbyggingu á svæðinu. Alcoa og kínverska fyrirtækið Bosai Minerals hafi fengið hæstu einkunn í mati á fýsilegum samstarfsaðilum. Það sé hans mat að ríkisstjórnin vilji ekki ganga til samstarfs við Alcoa.

„Ég vil minna ráðherrann á að samkvæmt samkomulagi okkar á að nota tímann frá 1. apríl til 1. október til frekari viðræðna við þau fyrirtæki sem helst koma til greina. Þau eru Alcoa og Bosai Minerals samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar. Niðurstaðan varðandi Alcoa kom mér ekki á óvart enda erum við mikið búnir að vinna með félaginu.

Við viljum að það sé farið í viðræður við þessa aðila og kannað hvort það sé raunverulegur áhugi hjá þeim. Við viljum að málið sé klárað og ekki varið tíma í að leita að aðilum út í heimi þegar við erum með þá við borðið nú þegar. Við vorum komin mjög langt með Alcoa í þessu máli þegar við fáum á okkur þennan sameiginlega úrskurð og síðan að ekki skyldi framlengd viljayfirlýsing í haust,“ segir Gunnlaugur og á við viljayfirlýsingu sem var undirrituð 22. október 2009 um atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslu. 

„Þar er skýrt kveðið á um að eftir 1. apríl eigi að fara og ræða nánar við þá aðila sem eru álitlegastir sem fjárfestingarkostur og það eru þessir tveir aðilar.“

Skilur ekki tilganginn

Gunnlaugur kveðst undrast vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. 

„Ég skil ekki hver tilgangurinn var að koma hér í gær og leyfa fólki ekki einu sinni að ræða það sem verið var að kynna. Mér finnst það með hreinum ólíkindum. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir okkur Þingeyinga og við getum ekki unað því lengur að við fáum ekki aðstoð frá ríkisvaldinu til að klára þetta mál. Hér fækkar fólki stöðugt og við leggjum mikið undir til að snúa þessari þróun við. Ég held að ríkisstjórnin vilji ekki að Alcoa komi hér að uppbyggingu.

Ef kosningaskjálfti er í einhverjum er það í hæstvirtum ráðherra sem kemur hér og gefur fólki ekki tækifæri á að ræða málin við þá sem fluttu erindi á þessum fundi,“ sagði Gunnlaugur.

Vísaði hann þar til þess að Katrín hélt því fram í viðtali við fréttavef Morgunblaðsins síðdegis að gagnrýni Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á meint aðgerðaleysi stjórnvalda í málinu mætti rekja til þess að sveitarstjórnarkosningar væru fram undan.

Gaf ekki færi á fyrirspurnum

Gunnlaugur undrast að Katrín skuli aðeins hafa leyft fjórum fundarmönnum af á þriðja hundrað að spyrja spurninga á fundinum.

„Fundinum var slitið einn tveir og þrír án þess að fólki gæfist færi á að spyrja hana. Það voru leyfðar fjórar fyrirspurnir og ég var einn af þeim sem reyndi að ná athygli fundarstjóra en fékk ekki að koma á framfæri með spurningar. Það var búið að stilla upp háborði þar sem var fullt af fólki en fundinum var bara slitið.

Ég er búinn að sitja marga fundi um ævina og þessi var einn af þeim furðulegustu sem ég hef setið. Ég hef orðið var við gríðarlega óánægju út af þessu, sérstaklega meðal þeirra sem voru á fundinum. Aðrir hafa komið eins og eitt spurningamerki og spurt „Hvað var í gangi þarna?“ Ég get ekki svarað því,“ segir Gunnlaugur.

Gunnlaugur Stefánsson.
Gunnlaugur Stefánsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert