Norskir bændur styðja íslenska starfsbræður

Aska út um allt undir Önundarhorni.
Aska út um allt undir Önundarhorni. mbl.is/Rax

Norska bændahreyfingin og fleiri fyrirtæki í Noregi hafa ákveðið að styðja við bakið á íslenskum bændum sem hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Þeir hafa lagt 7 milljónir íslenskra króna í sjóð sem Bændasamtökum Íslands er ætlað að ráðstafa til þeirra bænda sem eiga í hlut.

Það eru norsku bændasamtökin Norges Bondelag, samvinnuhreyfingin Norske Felleskjöp, mjólkurvinnslufyrirtækið TINE,  kjötfyrirtækið Nortura, tryggingafélagið Gjensidige, áburðarframleiðandinn Yara og bankinn Landkreditt sem hvert um sig leggur 1 milljón íslenskra króna í sjóðinn, samkvæmt fréttatilkynningu.

Þeir hvetja jafnframt einstaka bændur, meðlimi í samvinnufélögum og starfsmenn innan norska landbúnaðargeirans til þess að leggja sjóðnum lið með frjálsum framlögum. Þeir skora einnig á önnur samtök og fyrirtæki sem tengjast norskum landbúnaði að leggja sitt af mörkum og sýna samstöðu í verki og hafa af því tilefni stofnað söfnunarreikning.

Í tilkynningu frá hópnum segir að íslenskir bændur standi frammi fyrir erfiðleikum vegna gossins og þeir bætist við þau áföll sem efnahagskreppan hefur haft í för með sér. Norðmennirnir segja mikilvægt að styðja við bakið á þeim bændafjölskyldum sem þurfa að hluta til að flytja burt af áhrifasvæði gossins en jafnframt að sinna búverkum. Það séu erfiðar ákvarðanir sem bændur þurfi að taka en nauðsynlegt sé að setja eigin heilsu og fjölskylduna í fyrsta sæti í slíkum aðstæðum.

Norskir bændur taka fram í fréttatilkynningu að rík hefð sé fyrir samstarfi milli þjóðanna sem eigi sér sameiginlega sögu og að mörg viðfangsefni séu hin sömu. „Við höfum staðið þétt saman í ýmsum málum í gegnum tíðina, m.a. hvað varðar fríverslunarsamninga GATT og WTO og í seinni tíð í afstöðunni til Evrópusambandsaðildar.“

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir í fréttatilkynningu að íslenskir bændur séu afar þakklátir fyrir þann stuðning sem berist nú frá norskum stéttarsystkinum.

„Stjórn Bændasamtakanna færir norskum bændum bestu þakkir fyrir þann samhug sem þeir sýna íslenskum bændum með þessari ákvörðun. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Norðmenn sýna okkur vinarþel,“ segir Haraldur og bætir því við að fjármunirnir verði notaðir til þess að hlúa að bændum og fjölskyldum þeirra. „Við höfum nú þegar auglýst sérstaka orlofsstyrki fyrir bændur en fjármunirnir frá Noregi gera okkur kleift að veita aukinn stuðning og aðstoða bændur sem hafa þurft að mæta áföllum vegna gossins. Það þarf að huga að heimilunum og gera það eftirsóknarvert fyrir bændur að búa á svæðinu. Að öðru leyti munum við útfæra þetta nánar á næstu dögum í samráði við heimamenn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert