Farbanni aflétt

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, (t.h.).
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, (t.h.). mbl.is/Eggert

Búið er að aflétta farbanni yfir fjórum fyrrverandi stjórnendum Kaupþings. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir í samtali við mbl.is að ekki hafi verið óskað eftir framlengingu.

„Það er mat okkar á stöðu málsins að það hafi ekki staðið nauðsyn til þess að takmarka ferðir þeirra, eða óska eftir framlengingu á farbanni. Miðað við stöðuna eins og hún er nú,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Ingólfur Helgason, Magnús Guðmundsson og Steingrímur Kárason eru því frjálsir ferða sinna. Þeir voru allir úrskurðaðir í farbann í tengslum við rannsókn embættisins á meintum lögbrotum stjórnenda Kaupþings, en farbannið átti að renna út í dag.

Þeir Hreiðar Már, Magnús og Ingólfur voru upphaflega úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Að sögn Ólafs er skýrslutökum yfir þeim lokið að sinni. „Það getur komið til síðar skýrslutökur yfir sömu mönnum, en við höfum í sjálfu sér ekki áhyggjur af því að þeir skili sér ekki heim til okkar. Ef á því þarf að halda.“

Aðspurður segir Ólafur að staðan sé óbreytt varðandi Sigurð Einarsson, fyrrum stjórnarformann Kaupþings. Embætti sé enn ekki búið að fá hann í skýrslutöku.

Ólafur segir að rannsókninni hafi miðað vel áfram. „Þetta er allt að skýrast. Það hefur verið mjög þýðingarmikið að afla þeirra skýrslna sem við höfum verið að vinna í síðustu daga. Það hefur verið góð framvinda í þessu,“ segir Ólafur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert