Hreiðar Már snýr aftur heim

Hreiðar Már Sigurðsson er búsettur í Lúxemborg þar sem hann …
Hreiðar Már Sigurðsson er búsettur í Lúxemborg þar sem hann og starfar. Árni Sæberg

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, heldur þegar til Lúxemborgar, að sögn Harðar Felix Harðarsonar, lögmanns hans. Hreiðari Má var sleppt úr farbanni fyrr í dag. Hörður segir að Hreiðar muni áfram sinna kalli sérstaks saksóknara verði óskað eftir honum til yfirheyrslu.

„Hann er náttúrlega búsettur erlendis og hefur verið frá fjölskyldu og vinnu allan þennan tíma,“ segir Hörður Felix og tekur fram að hann muni eftir sem áður svara kalli Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara.

Spurður út í afstöðu Hreiðars Más til rannsóknarinnar segir Hörður Felix: „Þetta snýst ekki um að lýsa sekt eða sakleysi. Verið er að reyna skýra ákveðin viðskipti sem eiga sér stað undir lokin.“

Ólafur Þór sagði í samtali við fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is, fyrr í dag að ekki hafi staðið nauðsyn til þess að takmarka ferðir Kaupþingsmanna, eða óska eftir framlengingu á farbanni miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Þó geti komið til skýrslutöku yfir sömu mönnum síðar, en Ólafur sagðist ekki áhyggjur af því að þeir skili sér í þær.

Ekki hefur náðst í lögmenn Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi og Steingríms Kárasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra áhættustýringar. Þeir eru allir, líkt og Hreiðar Már, búsettir í Lúxemborg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert