Pálmi segir fréttir af sér uppspuna

Pálmi Haraldsson.
Pálmi Haraldsson. Sverrir Vilhelmsson

Pálmi Haraldsson, oftast kenndur við Fons, segir í tilkynningu að frétt Svavars Halldórssonar, fréttamanns RÚV, í gær sé uppspuni einn, líkt og aðrar fréttir Svavars af málefnum sínum. Í fréttinni segir að fjármunir sem Fons hf. lánaði áhættufjárfestingarsjóðnum Pace Associtates á árinu 2007 hafi aftur endað í vasa Pálma.

„Hið eina sem ég veit um þá fjármuni sem frétt Svavars fjallaði um er, að á árinu 2007 hafði Landsbankinn Lúxemborg milligöngu um að Fons lánaði Pace Associtates kr. 3.000 milljónir. Þegar lán þetta var veitt af hálfu Fons var mér sem forsvarsmanni félagsins kynnt að Pace Associtates væri áhættufjárfestingarsjóður, sem fjárfesti m.a. í fasteignaverkefnum á Indlandi og hygðist efla starfsemi sína m.a. með fjárfestingum í skráðum erlendum verðbréfum og fasteignum víða um heim. Fjárfestingar í þessa veru voru ekki óalgengar eftir að íslensku viðskiptabankarnir hófu starfsemi erlendis. Ekkert var óeðlilegt við lánveitingu Fons til Pace. Lánveitingin var í samræmi við  tilgang Fons og innan marka samþykkta félagsins,“ segir í tilkynningu Pálma.

Hótar málsókn öðru sinni

Pálmi kemur einnig inn á dómsmál sitt á hendur Svavari Halldórssyni vegna fréttar sem hann flutti um Pálma og fjármál hans 25. mars sl. „Ekki var fótur fyrir þeirri frétt. Enn heldur sami Svavar áfram. Hér með skora ég því á Svavar Halldórsson  og fréttastofu Ríkisútvarpsins að biðjast formlega afsökunar á fréttinni frá í gærkvöld og draga hana til baka. Að öðrum kosti verður að fá hana leiðrétta með atbeina dómstóla. “

Pálmi segir, að það kunni að vera að hann sé réttlaus maður í augum Svavars Halldórssonar og fréttastofu Ríkisútvarpsins en aðdróttanir sem slíkar verði ekki liðnar hér eftir fremur en hingað til. „Tjón mitt og félaga, sem ég er í forsvari fyrir vegna bankahrunsins er mikið. Það gerir engum auðvelt fyrir í rekstri að vera úthrópaður glæpamaður í fjölmiðlum daginn út og daginn inn; glæpamaður sem á að hafa rænt Glitni banka og eigin félög í einhverjum flóknum viðskiptafléttum. Slíkt gerðist aldrei hvorki í þessum Pace- viðskiptum né öðrum.“


 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert