Árás Ísraela rædd í utanríkismálanefnd

Sundmaður mótmælir árásinni í höfninni í Gaza.
Sundmaður mótmælir árásinni í höfninni í Gaza. Reuters

Boðað hefur verið til fundar í utanríkismálanefnd nú kl. 18.15 vegna árásar Ísraela á skipalest á leið til Gaza með hjálpargögn. Í fréttatilkynning frá þinghópi Hreyfingarinnar kemur fram að fundurinn sé haldinn af beiðni Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar.

„Minnst 19 manns voru drepnir í árásunum og fjölmargir særðir. Vegna ástandsins í borginni þurfa um 80% íbúa hennar að reiða sig á aðstoð alþjóðlegra hjálparsamtaka til að draga fram lífið.

Um borð í skipalestinni voru, meðal annarra, nóbelsverðlaunahafi, aðgerðasinnar og þingmenn frá Bretlandi, Írlandi, Alsír, Kúvæt, Grikklandi og Tyrklandi og fleiri löndum.

Í kjölfar atburðanna hafa Tyrkir, Spánverjar, Grikkir, Danir og Svíar kallað ísraelska sendiherra á fundi til að mótmæla árásinni. Á fundi nefndarinnar mun Birgitta leggja til að Ísland fordæmi árásirnar og slíti stjórnmálasambandi við Ísrael í mótmælaskyni,“ segir í tilkynningunni sem Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari undirrita.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert