Ekkert lát á öskufoki á Suðurlandi

Umferðarskilti á Mýrdalssandi þakið ösku.
Umferðarskilti á Mýrdalssandi þakið ösku. mbl.is/Kristinn

Talsvert hefur verið um öskufok í dag sem og undanfarna daga á Suðurlandi og liggur öskumökkur yfir landinu. Þótt gosið hafi legið niðri í Eyjafjallajökli síðustu daga þá er ennþá nóg af ösku í grennd við eldstöðina og eru Sunnlendingar orðnir langeygir eftir rigningu.

Dökkur mökkur liggur yfir Suðurlandsveg og að Hvolsvelli og berst hann frá Fljótshlíð og Eyjafjöllum og leggur að hafi að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli.

Öskufok var einnig á höfuðborgarsvæðinu í nótt og sást greinileg öskuskán á bifreiðum borgarbúa í morgun.

Upplýsingar um öskufall og viðbrögð við því má finna á vef Umhverfisstofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert