Hrun í sölu dráttarvéla

Bændur reyna nú að nýta þann dráttarvélakost sem þeir hafa …
Bændur reyna nú að nýta þann dráttarvélakost sem þeir hafa nú þegar og fresta endurnýjun Þorkell Þorkelsson

Engar dráttarvélar voru nýskráðar í maí, samkvæmt tölum frá Umferðarstofu. Algjört hrun í sölu nýrra dráttarvéla hefur orðið frá því í ágúst 2008.

Maí og júní eru vanalega metmánuðir í nýskráningu dráttarvéla en nú ber svo við að engin ný vél seldist í nýliðnum mánuði. Frá árinu 2005 til 2007 seldust á bilinu 40-66 nýjar dráttarvélar í hvorum mánuði fyrir sig en þeim fækkaði niður í 30 vélar í maí 2008 og svo 20 vélar í júní sama ár.

Í fyrra seldust svo 3 nýjar dráttarvélar í maí og 6 vélar í júní. Allt síðasta ár voru 29 dráttarvélar nýskráðar en til samanburðar voru 383 vélar skráðar árið 2007.

„Þetta er bara lýsandi fyrir þjóðfélagið allt, menn eru ragir við fjárfestingar og skuldbindingar sem fylgja svona dráttarvélakaupum og eru að fresta eðlilegri endurnýjun og viðhaldi,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Hann segir nokkuð mikla eftirspurn eftir notuðum dráttarvélum en framboðið frekar lítið þannig að þegar góð vél sé auglýst seljist hún mjög fljótt.

„Það er mjög vont ef endurnýjun dráttarvéla frestast lengi, færri notaðar vélar eru þá í umferð og við horfum fram á uppsafnaða endurnýjunarþörf sem skellur á af meiri þunga þegar fram líður.“

Haraldur segir að góð dráttarvél geti enst í 10-12 ár. „Þetta hefur þróast mikið í það að bændur eiga 1-2 aðalvélar en svo treysta margir orðið á verktaka sem taka að sér jarðvinnslu og slíkt, þá er ekki þörf á að bændur eigi eins margar dráttarvélar og áður.“

Haraldur segir að bændur eins og aðrir hafi lent illa í efnahagskreppunni og eigi margir í greiðsluerfiðleikum. Hann telur að hlutfall fjársterkra búa og svo hinna sem eiga í fjárhagserfiðleikum sé svipað og í öðrum atvinnurekstri. „Þetta er hinsvegar viðkvæm staða þegar fyrirtækið er í raun heimili þitt um leið.“

Formaður Bændasamtaka Íslands segir vont ef endurnýjun dráttarvéla frestast
Formaður Bændasamtaka Íslands segir vont ef endurnýjun dráttarvéla frestast Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert