Sumar og sól í kortunum

Buslað í Nauthólsvík
Buslað í Nauthólsvík mbl.is/Ómar Óskarsson

Útlit er fyrir að veður verði nokkuð gott um helgina ef horft er til sólskins og hita. Það er fremur hlýtt í lofti yfir landinu og hæðarsvæði ríkjandi fyrir austan land. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur spáir allt að 20 stiga hiti vestanlands á föstudag og jafnvel á laugardag.

Í sumar mun Einar upplýsa lesendur mbl.is á fimmtudögum um hvernig veðurútlitið er næstu daga.

Þessa fyrstu helgi júnímánaðar er ekki annað að sjá að veður verði nokkuð gott  ef horft er til sólskins og hita, samkvæmt spá Einars. 

Það er fremur hlýtt í lofti yfir landinu og hæðarsvæði ríkjandi fyrir austan land. Úti við sjóinn austan- og norðantil gerir svalur sjórinn það að verkum að þar verður ekkert sérlega hlýtt, en mun skárra inn til landsins og eins á heiðum og til fjalla þar sem sólin mun skína glatt.  Allt að 20 stiga hiti vestanlands á föstudag og jafnvel einnig á laugardag, en meiri líkur á vætu sunnanlands og vestan á sunnudag.

Föstudagur 4. júní:

Léttskýjað og sólríkt eftir því um mest allt land.  Skýjabakki þó viðloðandi suðurströndina en varla rigning frá honum.  Eins má gera ráð fyrir þokuslæðingi á Austfjörðum og norður með ströndinni.

Í Mýrdal og undir Eyjafjöllum verður dálítill strekkingur af austri og suðaustri og þar því öskufjúk, sem berst yfir sveitir Suðurlands. Mögulega heldur smávægileg rigning þó þessum ófögnuði í skefjum.

Vestanlands, í Borgarfirði, Snæfellsnesi og í Dölum er spáð fínu sumarveðri, og hita allt að 20 stigum.  Eins verður hlýtt og gott sums staðar norðanlands.  Hins vegar NA-vindur á Vestfjörðum og við Húnaflóa og þar því svalara 7 til 10 stiga hita sem og á annesjunum  á Norðurlandi. 

Reykjavík:  Léttskýjað, hægur vindur og hiti 15 til 17 stig. Sannkallaður góðviðrisdagur, en hætt við öskumistri að austan.

Akureyri:  Allt að því heiðríkt, hafgola  og hiti 10 til 13 stig.

Laugardagur 5. júní:

Ekki miklar breytingar og áfram berst milt og frekar þurrt loft til okkar úr suðaustri. Hiti allt að 16 til 20 stig að deginum  í uppsveitum Suðurlands, Borgarfirði og inn til landsins á Norðurlandi, en annars um 9 til 13 stig.

Heldur meiri líkur á lítilsháttar rigningu frá Eyjafjöllum og austur um á sunnanverða Austfirði, sérstaklega þegar líður á daginn. Eins hætt við þokusúld á Ströndum og annesjum Norðanlands.  Vindur hægur á landinu ef syðsti hlutinn er undanskilinn þar sem SA- og A-áttin verður þetta 7-10 m/s. Þar sem milt loft er yfir okkur, þarf ekki að hafa verulega áhyggjur af því að kólni að ráði yfir nóttina.

Sunnudagur 6. júní:

Aðfaranótt sunnudagsins er von á úrkomubakka úr suðri og þá þykknar í lofti og fer að rigna sunnantil.  Þegar kemur fram á morguninn er útlit fyrir rigningu á Suður- og Vesturlandi, eins víða á Vestfjörðum og sums staðar vestantil á Norðurlandi. Vindur með þessu hins vegar hægur.

Norðaustan- og austanlands er spáð þurru veðri og víða verður nokkuð bjart. Við Eyjafjörð, í Þingeyjarsýslum og á Héraði verður sæmilega hlýtt  eða um eða yfir 15 stig, en heldur svalara við sjóinn, þar sem hafgolan kemur til með að ráða ríkjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert