Hugtakið eyðilagt með rugli

Höskuldur H. Ólafsson er nýr bankastjóri Arion banka.
Höskuldur H. Ólafsson er nýr bankastjóri Arion banka. Eggert Jóhannesson

Engu bónuskerfi verður komið á í Arion banka „að svo stöddu“, segir Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri, sem hóf störf í bankanum á þriðjudag. Hann útilokar þó ekki að slíkt kerfi verði tekið upp í náinni framtíð.

„Það verður ekkert bónuskerfi eða ábatakerfi sett upp hér að svo stöddu,“ segir hann í ítarlegu viðtali við Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur í SunnudagsMogganum á morgun. „Mín afstaða er hins vegar að það er ekkert athugavert við hvatakerfi og þau geta jafnvel verið gagnleg. Hins vegar voru þau komin út í vitleysu í gömlu bönkunum. Við þurfum að læra af reynslunni og búa til hvatakerfi sem eru eðlileg, eins og við þekkjum úr allskonar starfsemi, s.s. byggingarvinnu og fiskvinnslu.“

Inntur eftir því hvort hann sjái fyrir sér að slíku bónuskerfi verði komið á í náinni framtíð segist hann ekki vilja útiloka það. „Núna er í smíðum frumvarp á Alþingi um starfsemi fjármálafyrirtækja þar sem Fjármálaeftirlitinu er falið að koma með regluramma um þetta. Hann verður svo viðmiðið. Mér finnst í raun ekkert að hvatakerfum en það er búið að eyðileggja hugtakið með þessu rugli sem var hér í gangi, alla vega í bili.“

Í viðtalinu ræðir Höskuldur vítt og breitt um þau mál sem hafa verið ofarlega á baugi í starfsemi Arion banka undanfarin misseri, um endurskipulagninguna á Samskipum, söluna á Högum, ábyrgðir starfsmanna vegna hlutabréfakaupa í gamla Kaupþingi og þá sem hafa stöðu grunaðra í rannsókn sérstaks saksóknara. Þá ræðir hann úrræði fyrir skuldsett heimili, nauðungaruppboð og fleira.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert