Sjö sæmdir heiðursmerki sjómannadagsins

Guðmundur Hallvarðsson formaður sjómannadagsráðs heiðraði sjómennina sjö.
Guðmundur Hallvarðsson formaður sjómannadagsráðs heiðraði sjómennina sjö. Morgunblaðið/Ernir

Hátíðardagskrá Sjómannadagsráðs lauk nú um þrjúleytið í Sjóminjasafni Reykjavíkur. Þar voru sjö aldraðir sjómenn heiðraðir fyrir störf sín á löngum sjómannaferli og sæmdir heiðursmerki sjómannadagsins.

Það voru þeir Berent Th. Sveinsson, loftskeytamaður, Engilbert Engilbertsson skipstjóri, Friðbjörn Kristjánsson bryti, Guðfinnur H. Pétursson vélstjóri, Steingrímur Þorvaldsson skipstjóri, Sverrir Símonarson sjómaður og  Þórir Magnússon sjómaður sem heiðraðir voru í ár. Allir hlutu þeir heiðursmerki sjómannadagsins og blómvönd.

Gissur Páll Gissurarson tenór söng Íslands Hrafnistumenn eftir Emil Thoroddsen og Örn Arnarson og fleiri lög. Þá flutti Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ávarp og einnig Heðin Mortensen, borgarstjóri Þórshafnar í Færeyjum. Gunnar Þórðarson og Hjörleifur Valsson léku létt lög en Gerður G. Bjarklind var kynnir.

Þótt hátíðardagskránni sé lokið heldur skemmtidagskráin áfram líkt og verið hefur alla helgina. Nú milli 14 -g 16 er keppt í kappróðri og sýnd björgun úr hafi auk listflugs yfir Reykjavíkurhöfn. Nú síðdegis kl. 16 stíga Ljótu hálfvitarnir á stokk og spila og syngja og dagskránni lýkur svo í kvöld með fiskiveislu Hátíðar hafsins á átta veitingastöðum í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert