Um 22 þúsund í alvarlegum vanskilum

Börn sem tengjast ekki fréttinni beint
Börn sem tengjast ekki fréttinni beint mbl.is/Golli

Tæplega 22 þúsund einstaklingar eru í alvarlegum vanskilum samkvæmt nýjum upplýsingum frá Creditinfo. Um er að ræða nýjar upplýsingar, ekki gögn frá fyrri tíma. Fjölgun alvarlegra vanskila hefur verið gríðarlega mikil að undanförnu. Hægt er að tala um að þetta séu 22 þúsund heimili ekki einstaklingar  þar sem flestir þeirra sem eru í vanskilum eru með fjölskyldur og sjaldgæft er að hjón eða sambúðarfólk séu bæði í alvarlegum vanskilum.

11 þúsund börn eiga foreldra í alvarlegum vanskilum

Um ellefu þúsund börn á Íslandi eiga foreldra í alvarlegum vanskilum. Til samanburðar má benda á að heimili í  Kópavogu eru um 15 þúsund talsins. 

Í dag eru tæplega 8 þúsund einstaklingar sem stefna að óbreyttu í alvarleg vanskil þó þeir séu ekki í alvarlegum vanskilum í dag. 

Creditinfo er einnig með upplýsingar sem benda til þess að að þeir sem þegar hafa fengið aðstoð þurfi meiri aðstoð.

56% þeirra sem hafa þegar fengið aðstoð segjast þurfa meiri aðstoð en 16% aðspurðra svarar hvorki né. 23% telja ólíklegt að þeir þurfi frekari aðstoð en einungis 5% er viss um að þurfa ekki frekari aðstoð. Um er að ræða rannsókn sem unnin var af Capacent Gallup fyrir Creditinfo.

Af þeim sem ekki þurfa aðstoð eru flestir barnlausir og ungir eða eldra fólk, það er 55 ára og eldra.

Það eru því 30-40% heimilanna sem þurfa á aðstoð eða frekari aðstoð að halda. 85% þeirra sem hafa nýtt sér aðstoð en þurfa aðstoð áfram eða telja sig þurfa aðstoð strax eða mjög fljótlega.

 78% af skuldum í vanskilum eru frá bönkum og fjármálafyrirtækjum.

Svipað hátt hlutfall þeirra sem tóku þátt og eru í vanskilum segja að þeir myndu semja um skuldirnar eða hætta að borga skuldirnar. 25,1% segjast myndu semja en 25% segja að þeir muni hætta að borga. 6,4% líta á það sem lausn  við fjárhagsvanda heimilanna að flytja úr landi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er það ungt fólk, það er yngra en fertugt, sem hefur flutt úr landi síðustu mánuði.

Mikilvægara að greiða símareikninginn heldur en tómstundir barna

Það sem fólk telur mikilvægast er að eiga fyrir mat en fleiri telja mikilvægara að geta greitt símareikninginn heldur en að geta greitt fyrir tómstundir barna sinna. Þetta kom fram í tölum sem Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, kynnti fyrir fjölmiðlum í dag.

Creditinfo hefur áhuga á að vinna með fjármálafyrirtækjum og aðstoða þá einstaklinga sem eru á vanskilaskrá. Hægt sé að upplýsa þá sem eru á skrá hvernig hægt er að komast af skránni. Með því sé hægt að hvetja fólk til þess að komast af vanskilaskrá.

 Creditinfo telur eðlilegt að fjármálafyrirtæki breyti lánaskilmálum, að fjölbreytni verði aukin. Til að mynda sé þeim umbunað sem standa í skilum og skipti þar ekki máli hvort viðkomandi er tekjuhár eður ei. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert