Hlunnindum starfmanna OR verður breytt

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), segir að hlunnindi starfsmanna fyrirtækisins muni verða tekin til skoðunar og þeim breytt. Þessi hlunnindi komust í hámæli í kjölfar umfjöllunar DV um sjö milljón króna Mercedes Benz-bifreið fjármálastjóra OR sem fyrirtækið greiddi.

Að sögn Hjörleifs njóta sex starfsmenm nú svokallaðra fullra hlunninda sem fela meðal annars í sér bifreið til einkaafnota á kostnað OR. Segir hann allan gang á því hvernig bifreiðir sé um að ræða þó hann segi að þær séu allar „í betri kantinum.“ Sjálfur segist hann njóta fullra hlunninda og hafa til umráða Land Cruiser-jeppa.

„Auðvitað orkar þetta tvímælis,“ segir Hjörleifur en bendir á að hlunnindin séu hluti af ráðningarsamningi þeirra sem njóta þeirra og því þurfi starfsmenn að sæta skerðingu á umsömdum kjörum. Því þurfi að stíga varlega til jarðar og hafa samráð við starfsfólk og yfirmenn.

„Til skamms tíma voru það ellefu starfsmenn sem nutu fullra hlunninda,“ segir Hjörleifur. Að undanförnu hafi þeim sem hafa bíl til einkanota verið fækkað um fimm. Það sé liður í frekari aðgerðum að ganga enn lengra en í kjölfar umræðunnar sem skapast hefur um bifreið fjármálastjóra OR hafi hann ákvðið að hlunnindin yrðu tekin til endurskoðunar og þeim breytt.

Ekki liggur þó fyrir hvenær málið verði tekið fyrir en fundað verður um það með stjórnarformanni OR þegar ný borgarstjórn Reykjavíkurhefur kosið hann. Hjörleifur leggur þó áherslu á að ákvörðun um endurskoðun hafi verið tekin. Hún hafi þegar verið tilkynnt starfsmönnum OR.

Hjörleifur B. Kvaran
Hjörleifur B. Kvaran Mbl.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert