Læknadeild aldrei vinsælli

mbl.is/Þorkell

Á sjötta þúsund nýnemar sækja um grunnnám við Háskóla Íslands fyrir næsta misseri en umsóknum um grunnnám  fjölgar um 12 % milli áranna 2009 og 2010.  Umsóknir um meistaranám eru 2.700 sem er met og er aukningin 32%. Á fimmta hundrað sækir um þreyta inntökupróf í læknadeild í sumar.

39% aukning á umsóknum um doktorsnám

Þá fjölgaði umsóknum um doktorsnám um 39% milli ára. Miðað við þær tölur sem nú liggja fyrir er heildarfjöldi umsækjenda um grunn- og framhaldsnám á níunda þúsund.Heildarfjölgun umsókna þegar allt er talið er því rösklega 18%.

Umsækjendur um grunnnám dreifast nokkuð jafnt yfir öll fimm fræðasvið Háskólans. Mesta fjölgun umsókna er þó á Heilbrigðisvísindasviði en þar eru umsóknir 31% fleiri en í fyrra.

Mesta fjölgun innan einstakra deilda Háskólans er í læknadeild, eða 80%, en á fimmta hundrað sóttu um að þreyta inntökupróf í læknadeild. Mest fjölgun í einstökum námsgreinum er í jarðeðlisfræði, kínversku, frönsku, efnaverkfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, lífefnafræði, alþjóðlegu námi í menntunarfræði, matvælafræði, tannsmíðum og geislafræði þar sem fjölgun umsókna er um og yfir 100 prósent.

Af öðrum fræðasviðum má nefna að umsóknir um grunnnám á Félagsvísindasviði eru 1.342, 869 á Hugvísindasviði, 858 á Verkfræði- og náttúruvísindasviði og 698 sækja um grunnnám við Menntavísindasvið. Háskóli Íslands hefur vaxið gríðarlega síðustu ár.

Skólinn stækkaði um fjórðung við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008 og svo aftur um 20% við inntöku nýnema síðasta haust.

200% aukning í tannsmíði

Alls sóttu 960 nemendur um nám við deildir Heilbrigðisvísindasviðs miðað við 731 í fyrra. Umsóknum þar fjölgar um 31% og er aukning veruleg í öllum deildum. Umsóknum um nám í tannsmíði fjölgar mest eða um meira en 200% milli ára.

Svipaða sögu að segja af matvælafræði þar sem áhuginn eykst verulega og umsóknir rösklega tvöfaldast í geislafræði. Áhugi er einnig verulegur á lífeindafræði þar sem umsóknum fjölgar um liðlega 60% og næringarfræði og lyfjafræði bæta einnig verulega við sig, eða ríflega 30% hvor grein.

Flestar umsóknir á Heilbrigðisvísindasviði bárust í BS-nám í sálfræði eða 381 sem er 21% meira en í fyrra, samkvæmt tilkynningu frá HÍ.

Tvöfalt fleiri vilja fara í jarðeðlisfræði

Umsækjendur um grunnnám á Verkfræði- og náttúruvísindasviði eru 858 og er aukningin á milli ára um 14%. Aukinn áhugi er á flestum náttúruvísindagreinum. Umsóknir eru meira en tvöfalt fleiri í jarðeðlisfræði milli áranna 2009 og 2010 og sömuleiðis í lífefnafræði og efnaverkfræði. Gríðarleg aukning er jafnframt í rafmagns- og tölvuverkfræði en 85 sóttu um nám í þeirri grein og er aukningin hartnær 60%.

Þá er veruleg aukning á umsóknum um nám í jarðfræði og eðlisfræði, eða yfir 30% í báðar greinar, og umsóknum um nám í hugbúnaðarverkfræði fjölgar næstum jafn mikið.

Enskan vinsælust á Hugvísindasviði

Á Hugvísindasviði sóttu 869 um grunnnám miðað við 745 í fyrra sem er 16% fjölgun. Fjölgun er í flestum deildum sviðsins en áhugi á erlendum tungumálum eykst verulega. Enska dregur til sín 154 nýja nemendur til samanburðar við liðlega 95 í fyrra og er hún orðin vinsælasta greinin á Hugvísindasviði.

Umsóknum fjölgar um 161% í frönsku og um 110% í kínversk fræði en áhuginn á sænsku er tvöfalt meiri en í fyrra.

„Athygli vekur mjög aukin sókn í kvikmyndafræði, sem er nýleg grein í Háskóla Íslands, en meira en 60 nemendur munu hefja nám í kvikmyndafræði næsta vetur samanborið við 33 í fyrra.

Þá sækja almenn málvísindi mjög í sig veðrið og eru umsóknir í þá grein 80% fleiri en í fyrra. Íslenska er einnig í sókn með nær 40% aukningu milli ára," samkvæmt tilkynningu.

350 vilja í viðskiptafræði og 330 í lögfræði

Alls sóttu 1.342 um grunnnám á Félagsvísindasviði miðað við 1.336 í fyrra og er því fjölgunin óveruleg. Mest fjölgun á fræðasviðinu er í mannfræði, eða rösklega 50% og aukningin er 39% í bókasafns- og upplýsingafræði. Aukinn áhugi er á ný í viðskiptafræði en umsóknum fjölgar um 34% í greininni og er hún nú aftur orðin sú vinsælasta á Félagsvísindasviði. Hartnær 350 hyggjast hefja nám í viðskiptafræði næsta vetur.

Annar stærsti nýnemahópurinn skráir sig til náms í lögfræði eða 330 talsins. 20% fleiri vilja nú hefja nám í hagfræði en hófu nám í þeirri grein í fyrra. Þá aukast vinsældir þjóðfræðinnar en 64 hyggjast hefja nám í henni á komandi hausti samanborið við 55 í fyrra.

Heildarfjöldi umsókna um grunnnám á Menntavísindasviði Háskóla Íslands er svipaður milli 2009 og 2010. Umsóknum um alþjóðlegt nám í menntunarfræðum fjölgar þó mikið, eða um 212%. Mikil aukning er í einnig í nám í tómstunda- og félagsmálafræði eða 70% og umsóknum um nám í uppeldis- og menntunarfræðum og í þroskaþjálfafræðum fjölgar um rösklega þriðjung. Flestar umsóknir um nám á Menntavísindasviði eru í grunnskólakennarafræði eða 234. Heildarfjöldi umsókna um grunnnám á Menntavísindasviði er 698.

Um 1.100 sóttu um skólavist í Háskólanum á Akureyri

Um 1.100 manns sóttu um skólavist í Háskólanum á Akureyri fyrir næstkomandi haust og er það 5-8 prósenta aukning frá því í fyrra, samkvæmt frétt Vikudags.

Mest er sótt í heilbrigðisdeildina og auðlindagreinarnar, en heldur fækkar í viðskiptadeildinni og í félagsvísindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert