Gult spjald á nýjan meirihluta

Lúðvík Geirsson
Lúðvík Geirsson hag / Haraldur Guðjónsson

Hópur Hafnfirðinga sem mótmælir því sem þeir kalla lítilsvirðingu við kjósendur í bænum hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem nýjum meirihluta Hafnarfjarðarbæjar er gefið „gula spjaldið“ og skorað á hann að auglýsa starf bæjarstjóra þegar í stað svo ráða megi í starfið á faglegum forsendum. Hin ætlaða lítilsvirðing felst í því að ráða Lúðvík Geirsson bæjarstjóra að nýju þrátt fyrir að hann hafi ekki náð sæti í bæjarstjórn í liðnum kosningum.

Tæplega þúsund manns eru meðlimir hópsins á samskiptasíðunni Facebook.

Í tilkynningunni segir að fjárhagsstaða bæjarins sé með því alversta sem þekkist og því sé löngu tímabært að kjörnir bæjarfulltrúar snúi bökum saman og velji hag bæjarbúa fram yfir eigin hagsmuni.

Í tilkynningunni segir ennfremur:

„Þeir bæjarfulltrúar sem hafna ofangreindum ábendingum verða endanlega rúnir öllu trausti meirihluta bæjarbúa og munu í kjölfarið fá RAUÐA SPJALDIÐ. Að okkar mati ber þeim einfaldlega að víkja úr bæjarstjórn á sama hátt og knattspyrnumenn á HM verða að víkja af leikvelli fyrir ítrekuð brot á leikreglunum.“

Efnt verður til mótmæla í miðbæ Hafnarfjarðar á morgun.

Hópurinn á Facebook

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert