Meira ímyndunarafl en rökhugsun

Jón Gnarr, formaður Besta flokksins, var kjörinn borgarstjóri á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur nú á þriðja tímanum. Hlaut hann níu atkvæði borgarfulltrúa sem borgarstjóri.

Besti flokkurinn er ekki stjórnmálaflokkur í hefðbundnum skilningi þess orðs, heldur stjórnmálapartý. Hann er meira ímyndunarafl en rökhugsun. Þetta sagði Jón Gnarr í ræðu sinni, þegar hann tók við embætti borgarstjóra. Jón sagði Besta flokkinn draga fram það besta í öðrum flokkum, enda væri hann búinn til úr því besta úr hverjum þeirra.

Lýsti hann þeirri skoðun sinni að gamansemi væri ekki endilega það að vera ekki alvarlegur og setti það í samhengi við málflutning flokksins til þessa. Sagði hann frá þeim æskudraumi sínum að verða trúður og því hvernig reynt var að bæla niður hinar gamansömu hneigðir hans í uppeldi og í skólakerfinu og hvernig honum var uppálagt að hugsa um margföldunartöflur en ekki það að fá vinnu í sirkús.

Hann sagði engan þurfa að óttast Besta flokkinn, því hann væri bestur. Þar með væri þó ekki sagt að allir skildu Besta flokkinn. Að því leyti væri flokkurinn líkur Múmínpabba. Hann væri svolítið ruglaður stundum, en þó vissu allir að hann væri ekki vondur.

Jón lýsti samstarfinu við myndun meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar og sagði það hafa gengið vel. Margir hefðu kynnst og skemmt sér vel, og margir hefðu horft á sjónvarpsþættina The Wire saman í heimahúsum og skemmt sér hið besta.

Jón sagðist trúaður á að hægt væri að fá borgarbúa til að hafa minni áhyggjur og vera betri hver við annan. Sagði hann að áhyggjur hefðu aldrei skilað neinu eða leyst nein vandamál. Hún væri andstæða jákvæðninnar. Kærleikurinn væri gjörningur, því það væri ekki til neins að játa einhverjum ást sína í sífellu, en gera aldrei neitt gott fyrir viðkomandi. Þess vegna ætlaði hinn nýi meirihluti að reyna að gera eitthvað gott fyrir borgarbúa. Sagði Jón að hann hefði ákveðið að gera Kardimommubæinn að vinabæ Reykjavíkur.

„All you need is love, love is all you need,“ sagði Jón að lokum.

Frá borgarstjórnarfundi í dag
Frá borgarstjórnarfundi í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Jón Gnarr nýr borgarstjóri í Reykjavík
Jón Gnarr nýr borgarstjóri í Reykjavík mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Fjölmennt er á pöllum Ráðhúss Reykjavíkur
Fjölmennt er á pöllum Ráðhúss Reykjavíkur mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert