Boða samstöðu í Mosfellsbæ

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri á kjörstað.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri á kjörstað.

Leitast verður við að ná víðtækri samstöðu allra framboða sem sæti eiga í bæjarstjórn við gerð fjárhagáætlun, þar sem ýtrustu varfærni og aðhaldssemi í rekstri bæjarfélagsins verður gætt.

Þetta kemur fram í áherslu- og samstarfssamningi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sem myndað hafa meirihluta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar.

Á kjörtímabilinu verður unnin lýðræðisstefna fyrir Mosfellsbæ sem meðal annars byggir á heildstefnumótun sveitarfélagsins. Kostað verður kapps að skólastarf verði áfram í fremstu röð og leitast verður við að efla atvinnulíf og vernda það sem fyrir er. Sérstaða Mosfellsbæjar verði nýtt með því að búa til umgjörð um heilsu- og menningartengda ferðaþjónustu.

Gjöldum á bæjarbúa verður stillt í hóf, einkum á barnafjölskyldur. Skipulagsmálin verða unnin í nánu samráði við íbúana. Lögð er áhersla á góð búsetuskilyrði í fallegu og öruggu umhverfi þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttum húsa- og íbúðagerðum sem uppfylla þarfir íbúa á öllum æviskeiðum.

Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum hlutu sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ 49.8% atkvæða og fjóra fulltrúa af sjö í bæjarstjórn og bættu við sig manni frá síðustu kosningum. Vinstri-græn hlutu 11,7% og einn fulltrúa líkt og fyrir fjórum árum. Flokkarnir störfuðu saman í meirihluta á síðasta kjörtímabili.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn hreinan meirihluta en hefur þrátt fyrir það óskað eftir áframhaldandi samstarfi  við Vinstrihreyfinguna grænt framboð. „Samstarf síðustu fjögurra ára hefur reynst vel og hefur einkennst af trausti og samhug. Niðurstöður kosninganna eru skýr skilaboð um ánægju íbúa. Þessir tveir flokkar hafa því orðið sammála um að halda samstarfi sínu áfram á kjörtímabilinu 2010-2014,“ segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Sjálfstæðismenn og Vinstrihreyfingin grænt framboð hafa skipt með sér verkum og verður Haraldur Sverrisson oddviti sjálfstæðismanna bæjarstjóri. Í upphafi verður Karl Tómasson oddviti VG forseti bæjarstjórnar og Herdís Sigurjónsdóttir, sem er í öðru sæti á lista sjálfstæðismanna verður formaður bæjarráðs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert