Segir viðmót ráðherra í garð dragnótarveiðimanna óþolandi

Frá dragnótaveiðum í Faxaflóa.
Frá dragnótaveiðum í Faxaflóa. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Gylfi Þ. Gunnarsson, útgerðarmaður í Grímsey, er ómyrkur í máli í garð Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra, vegna þeirra hugmynda um verndun grunnslóðar sem kynntar voru fyrir rúmri viku. Gylfi telur ráðuneytið hér beina spjótum sínum að veiðum með dragnót þótt nýleg rannsókn Hafrannsóknastofnunarinnar í Skagafirði sýni að áhrif dragnótaveiða á lífríki hafsbotnins séu ekki marktæk.

Frá þessu greinir á vef Viðskiptablaðsins.

„Ráðherra kaus að skjóta þessari skýrslu undir stól enda var niðurstaða hennar örugglega ekki í þeim anda sem hann hafði vonast eftir," segir Gylfi á vef LÍÚ, en hann hefur sjálfur einmitt stundað dragnótaveiðar fyrir úti Norðurlandi, m.a. í Skagafirði. Í tilkynningu ráðuneytisins er rætt um að setja af stað verkefni þar sem kannaðir yrðu kostir þess að takamarka veiðar „afkastamikilla skipa á grunnslóð," eins og það er orðað. Hann telur grundvöll verkefnisins byggt á loðnum forsendum og spyr: „Hvað eru afkastamikil veiðarfæri og við hvað er þá miðað?"

Gylfi segir viðmótið í garð þeirra sem gera út á dragnót gersamlega óþolandi. „Þessi gagnrýni á dragnótaveiðar jaðrar við ofsóknir. Af hverju horfast menn ekki í augu við staðreyndir? Þær eru að 75-80% allra skyndilokana veiðisvæða eru vegna smáfiskadráps krókabáta, ekki vegna veiða í dragnót," segir Gylfi.

Hann varpar því fram hvort ekki sé kominn tími til að kanna áhrif þess á lífríkið að hér séu tugþúsundir króka í sjó á grunnslóð allan ársins hring. „Gleymum því ekki að allur þessi smáfiskur sem sem drepinn er með krókaveiðunum nær aldrei að hrygna. Stærstur hluti hans kemur ekki einu sinni fyrir augu eftirlitsmanna, sem grípa ekki til lokana fyrr en þeir fylgjast með löndun á bryggjunni."

Dragnótarbátur að veiðum.
Dragnótarbátur að veiðum. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert