Ólöglegt að setja lög um verðtryggingu

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Mbl.is

„Þetta er alveg klárt, dómurinn stendur eins og hann er, gengistryggingin er ólögleg, er búin að vera það í níu ár síðan lögin voru sett 2001, og vextirnir standa eftir,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og lögfræðingur, um dóm Hæstaréttar um gengistryggingu lána.

Vigdís segir að þó að svo færi að Alþingi yrði pínt til þess að setja lög um verðtryggingu á gengistryggð lán yrði það eftir á gjörningur og afturvirk lög sem eru að sama skapi ólögleg. Það væri því ekkert svigrúm til staðar til þess að breyta þessu með þeim hætti.

„Við skulum síðan ekki gleyma því að ríkisstjórnin var búin að afgreiða mál heimilanna, það átti ekkert að gera neitt meira fyrir þau,“ segir Vigdís og bætir við að ríkisstjórnin hafi í raun fengið með þessu dóm á sig. Með dómum Hæstaréttar hafi náðst fullnaðarsigur hvað snýr að gengistryggðum lánum. Þeir kalli síðan á það að í framhaldinu verði farið í almenna niðurfærslu á verðtryggðum lánum eins og framsóknarmenn hefðu talað fyrir.

„Það verður á einhvern hátt að koma til móts við þá sem eru með verðtryggðu lánin sem hafa lent í miklum hækkunum. Þar hefur orðið ákveðinn forsendubrestur líka. Þannig næst sátt um málið,“ segir Vigdís.

Hún leggur þó áherslu á að um algerlega aðskilin mál sé að ræða að öðru leyti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert