705 taka stöðu með níumenningunum

Ragnheiður Ásta Pétursdóttir fyrrum þula afhenti undirskriftirnar fyrir hönd mótmælenda …
Ragnheiður Ásta Pétursdóttir fyrrum þula afhenti undirskriftirnar fyrir hönd mótmælenda og aðstandenda þeirra. Morgunblaðið/Ernir

Rúmlega  700 undirskriftir mótmælenda, við yfirlýsingu um árásir á Alþingi, voru afhentar Ástu R. Jóhannesdóttur forseta Alþingis fyrir þingfund í morgun.  Tilefni undirskriftasöfnunarinnar eru málaferli íslenska ríkisins gegn 9 einstaklingum sem sakaðir eru um lögbrot þegar þeir mótmæltu á þingpöllum 8. desember 2008.

„Við trúum því, sérstaklega eftir að hafa skoðað sönnunargögnin, myndböndin úr þinghúsinu, að þetta hafi verið ofbeldislaus gjörningur," segir Bryndís Björgvinsdóttir, einn aðstandenda yfirlýsingarinnar. Krafa mótmælendanna er að ríkið falli frá kærum á hendur níumenningunum ellegar að „ákæruvaldið sýni þá nákvæmni að gefa út ákærur á hendur öllum þeim sem réðust á Alþingi veturinn 2008-2009". Undir yfirlýsinguna skrifa 705 einstaklingar sem tóku þátt í mótmælunum.

„Auðvitað teljum við þúsundir vera samsekar níumenningunum, en það er ekkert sjálfsagt að skrifa undir svona yfirlýsingu svo við erum mjög ánægð með viðbrögðin," segir Bryndís. Hún segir það sjálfsagða kröfu að jafnt sé látið yfir alla ganga.  „Það voru læti og stympingar á þingpöllunum, en það var af svipuðum eða sama meiði og búsáhaldabyltingin. Það var enginn ásetningur um ofbeldi í hvorugum gjörningnum og það er ljóst að þessir níumenningar eru úrtak. Það er eitthvað sem við ætlum ekki að líða, að 9 manns verði gerð að blórabögglum."

Það var Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, fyrrum þula á Ríkisútvarpinu og móðir eins níumenninganna sem afhenti undirskriftarlistann í táknrænni athöfn á tröppum Alþingishússins ásamt um 30 manns úr hópi mótmælenda. Þingforseti staldraði stutt við, tók við undirskriftunum með þeim orðum að á Alþingi væri löggjafinn, yfirlýsingin ætti erindi við dómsvaldið en ekki löggjafavaldið. 

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni á heimasíðu Róstur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert