Ábyrgðin hjá gömlu bönkunum

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert

„Ábyrgðin á þessu hlýtur að liggja hjá gömlu bönkunum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is um dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán. Það hljóti að vera svo að skuldabréfið sem hafi verið gefið út á milli nýju og gömlu bankanna verði endurskoðað. 

„Áður en kemur að því að ríkissjóður fær að bæta hlutafé í Landsbankann þá hlýtur ríkið, sem eigandi Landsbankans nýja, að vísa ábyrgðinni á þessu yfir á gamla bankann,“ segir Gylfi. Aðspurður segist Gylfi ekki sjá hvað stjórnvöld eigi að gera í málinu, en því hefur verið varpað fram að þau eigi að grípa til aðgerða.

„Menn hljóta að láta á það reyna að uppgjörið á milli gömlu bankanna og nýju bankanna verði tekið upp. Áður en nýtt eigið fé bankanna verði látið hverfa út af þessu þá hljóta menn að láta skaðann af þessu, sem hlýtur að vera mikill, lenda á gömlu bönkunum og kröfuhöfum þeirra. Það er ekki rökrétt að það lendi á þjóðinni,“ segir hann.

 „Öll lán sem voru skrifuð svona - það skiptir engu máli hvort þú keyptir þér bíl eða hús eða hvað annað - ef lánasamningurinn er skrifaður í krónum, greiddur út í krónum, endurgreiddur í krónum en er síðan með einhverja tengingu í eitthvað gengi - sem virðist hafa verið æði algengt og ekki bara gagnvart heimilunum heldur líka fyrirtækjum - þá er slíkur lánasamningur ólögmætur,“ segir Gylfi.

„Þetta mál er lítt til þess fallið að skapa einhverja ró,“ segir Gylfi og bætir við að deilur muni brjótast út falli kostnaðurinn á skattborgarana. Ljóst sé að menn verði að leysa úr þessum ágreiningi sem fyrst. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert