Enginn rekinn úr Sjálfstæðisflokknum

Jónmundur Guðmarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.
Jónmundur Guðmarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

„Það er ekki verið að reka viðkomandi úr flokknum, alls ekki, heldur hefur hann sjálfur ákveðið að ganga úr flokknum með því að taka að sér trúnaðarstörf fyrir aðra stjórnmálaflokka," segir Jónmundur Guðmarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins um brotthvarf Ólafs Áka Ragnarssonar, fyrrverandi bæjarstjóra í Ölfusi úr flokknum.

Ólafur Áki fékk símtal í gær þar sem tilkynnt var að hann teldist ekki lengur vera flokksmeðlimur eftir að hann bauð fram undir formerkjum A-lista óháðra í sveitastjórnarkosningum í Ölfusi í vor. Jónmundur segir að skipulagsreglur flokksins séu alveg skýrar og á fundi miðstjórnar á miðvikudag hafi verið farið sérstaklega yfir þær reglur og einróma verið samþykkt að það væri ekkert svigrúm til að hnika frá þeim.

„Ástæða þess að ég hafði samband við Ólaf Áka var að ég vildi með kurteisisleigum hætti láta hann vita af þessu. Það er ekki hægt að túlka það sem einhvern brottrekstur úr flokknum, alls ekki, enda hefur framkvæmdastjóri flokksins ekki það vald að reka menn úr honum og ég myndi aldrei taka mér það vald. En miðstjórn flokksins er æðsta vald hans á milli landsfunda og hún komst að þessari niðurstöðu."

Jónmundur segir hugsanlegt að fleiri Sjálfstæðismenn fylli sama flokk og Ólafur Áki eftir sveitastjórnarkosningarnar í vor en hann hafi ekki yfirsýn yfir það og á ekki von á því að það verði farið kerfisbundið yfir það.  Hann segir hins vegar að þótt litið sé svo á að þeir sem bjóði sig fram fyrir aðra flokka segi sig sjálfkrafa úr Sjálfstæðisflokknum sé ekkert því til fyrirstöðu að þeir gangi í hann aftur. „Að sjálfsögðu, það er öllum og þar með talið Ólafi Áka velkomið að ganga í Sjálfstæðisflokkinn hvenær sem er."

Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ölfuss
Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ölfuss
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert