Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 8%

Alcoa Fjarðarál
Alcoa Fjarðarál Þorvaldur Örn Kristmundsson

Umhverfisstofnun hefur skilað skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2008 til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Árið 2008 var losunin 4,8 milljónir tonna CO2 - ígilda og jókst um 8% milli ára. Langstærstan hluta þeirrar aukningar má rekja til Fjarðaáls, sem var gangsett árið 2007 en komst í fulla framleiðslu árið 2008.

Ísland er skuldbundið til þess að halda sig innan tiltekinna marka varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt spám Umhverfisstofnunar mun Ísland standa við sínar skuldbindingar gagnvart Kýótó-bókuninni, en ljóst er að svigrúm er ekki mikið að sögn Umhverfisstofnunnar. 

Á fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar frá 2008 til 2012 nema losunarheimildir Íslands rúmlega 18,5 milljónum tonna CO2-ígilda. Þetta jafngildir því að árleg losun skuli að meðaltali nema um 3,7 milljónum tonna. Samkvæmt sérstöku ákvæði (ákvörðun 14/CP.7) er Íslandi þó heimilt að halda losun frá nýrri stóriðju eða stækkun stóriðjuvera utan við losunarskuldbindingar sínar eftir að losunarheimildir hafa verið fullnýttar, samkvæmt tilteknum reglum. Heildarmagnið sem halda má utan við losunarheimildirnar nemur samtals 8 milljónum tonna á fyrsta skuldbindingartímabilinu, eða að meðaltali 1,6 milljónum tonna á ári.

Sérstakar reglur gilda um hvaða losun falli undir ákvörðun 14/CP.7, eða hið svokallaða “íslenska ákvæði”. Einnig er mögulegt að kaupa heimildir á kolefnismörkuðum og að fá viðurkenndar sérstakar heimildum vegna þátttöku í verkefnum á sviði loftslagsvænnar þróunaraðstoðar og/eða vegna bindingar kolefnis með landgræðslu og skógrækt.

Útstreymi á Íslandi árið 2008 var 4,8 milljónir tonna CO2-ígilda. Þar af falla 1,1 milljónir tonna undir íslenska ákvæðið. Útstreymi að frátöldu því sem fellur undir íslenska ákvæðið var samtals rúmlega 3,7 milljónir tonna. Fyrirfram var búist við því að útstreymi árið 2008 yrði mikið vegna þess að framleiðsla myndi aukast hjá Fjarðaáli. Í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir frádrætti vegna bindingar kolefnis með landgræðslu og skógrækt. Þessi binding nam árið 2008 um 371 þúsund tonna.

Umhverfisstofnun vann árið 2008 spá um losun gróðurhúsalofttegunda árin 2008 til 2012. Samkvæmt spánni verður útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi innan marka Kýótó-bókunarinnar að vissum forsendum gefnum. Sjá nánar á vef Umhverfisstofnunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert