Fréttaskýring: Myntkarfan týndist á gráu svæði

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Eyþór

Samkvæmt heimildum innan úr Fjármálaeftirlitinu og frá fyrrverandi lykilstarfsmönnum þess komu gengistryggð lán, gjarna kölluð myntkörfulán, aldrei til athugunar hjá stofnuninni; hvorki í kjölfar þess að lög sem tóku fyrir aðra verðtryggingu láns- og sparifjár í íslenskum krónum en tengingu við vísitölu neysluverðs voru sett 2001 né á síðari stigum, þegar tekið var að lána fólki gengistryggðar krónur í miklum mæli.

Herma þessar sömu heimildir að úr því að her lögfræðinga banka og fjármögnunarfyrirtækja hafi talið gengistryggingu lögmæta hafi ekki komið til nein athugun af hálfu eftirlitsins. Með öðrum orðum hafi fjármálafyrirtækjunum verið treyst til að meta lögmæti skilmálanna án nokkurrar sjálfstæðrar skoðunar Fjármálaeftirlitsins.

Í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er stofnuninni falið að hafa eftirlit með starfsemi banka, sparistjóða, lánastofnana og fleiri lögaðila af svipuðu tagi. Kveða lögin á um virkt frumkvæðiseftirlit með því hvort eftirlitsskyldir lögaðilar fara að lögum og öðrum reglum. Þá eru veittar heimildir til að gefa út leiðbeindandi tilmæli, gera kröfur um úrbætur og beita févíti og dagsektum sé kröfum um úrbætur ekki sinnt. Ljóst er að mat á því hvort farið sé að lögum og reglum er á stjórnsýslustigi í höndum Fjármálaeftirlitsins en lokaúrlausn er þó alltaf í höndum dómstóla.

Gengistryggð lán í íslenskum krónum voru veitt af bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum í um átta ár þrátt fyrir ákvæði laga. Ólögmæti gengistryggingar lánsfjár í íslenskum krónum var staðfest með dómum Hæstaréttar í málum SP-fjármögnunar og Lýsingar sextánda þessa mánuðar.

Stóð FME nær að athuga lánin

Fulltrúar Fjármálaeftirlitsins hafa bent á að Samkeppniseftirlitinu og síðar Neytendastofu hafi verið falið eftirlitshlutverk með neytendalánum samkvæmt lögum um þau. Hjá Neytendastofu benda menn á Fjármálaeftirlitið; því beri að hafa eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja og lánveitingum þeirra. Að mati sérfræðings á sviði stjórnsýsluréttar og fjármálaeftirlits stendur eftirlit með lánaskilmálunum á mörkum verksviða þessara stofnana.

Þeir séu á gráu svæði og óljóst undir hvora stofnunina þeir heyra en Fjármálaeftirlitinu standi þó nær að hafa eftirlit með skilmálum þessara lánasamninga. Meðal annars bendir hann á að Neytendastofu sé aðallega ætlað að standa vörð um hag neytenda og gengistryggðu lánin hafi í upphafi virst þeim hagstæð. Þá hafi lög um neytendalán að mestu að geyma ákvæði um að upplýsingaskylda séu uppfyllt en eiginlegt lögmæti lána og samningsskilmála sé á könnu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt almennum ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi í aðdraganda efnahagshrunsins glímt við stór verkefni með ónógar fjárveitingar að baki sér. Forgangsröðun og áræði í vinnulagi hafi einnig skort. Telur sérfræðingurinn sem Morgunblaðið ræddi við að þetta, í bland við tíðaranda sem var allt að því fjandsamlegur hvers konar afskiptum stjórnvalda af fjármálafyrirtækjum, hafi orsakað að almenn ákvæði og vísireglur um eftirlit hafi verið túlkaðar þröngt. Eftirlitið hafi því ekki náð markmiði sínu í þessum málum og öðrum.

Valgerður Sverrisdóttir tekur undir að afskipti stjórnvalda hafi verið litin hornauga. Hún var viðskiptaráðherra frá 1999 til 2006 og segir að hún og ráðuneytið hafi talið lögin frá 2001 taka með öllu fyrir gengistryggingu lána í íslenskum krónum.

„Á þessum tíma var lögð mikil áhersla á sjálfstæði FME og að stjórnmálamenn ættu ekki að hafa afskipti að því,“ segir Valgerður og kveður að í ljósi þess hafi ráðuneytið ekki hlutast til um málið. Á sínum tíma hafi hún jafnvel þótt hafa of mikil afskipti af stofnuninni og verið gagnrýnd fyrir það. Þá er Fjármálaeftirlitið samkvæmt lögum sjálfstæð stofnun og lýtur ekki beinu boðvaldi viðskiptaráðherra þó hún heyri undir ráðuneyti hans.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert