Rússi og Kasakstani í amfetamínmálinu - ekki Litháar

Efnin voru falin í flöskum inni í bensíntanki bifreiðarinnar.
Efnin voru falin í flöskum inni í bensíntanki bifreiðarinnar. Ljósmynd/LRH

Önnur kvennanna sem handteknar voru um miðjan mánuðinn fyrir stórfellt amfetamínsmygl er rússnesk, en hin er frá Kasakstan. Báðar eru þær með þýskan ríkisborgararétt. Þær eru því ekki litháískar eins og sagt var í Fréttablaðinu í dag.

Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, gefur ekki upp hvaðan amfetamínið er komið né heldur hvaðan konurnar lögðu upp í för sína. Það sé í rannsókn. Yfirheyrslur standi enn yfir og muni gera það á næstu dögum.

Ekki er búið að slá því föstu að konurnar hafi komið hingað á vegum litháísku mafíunnar, en önnur evrópsk glæpasamtök hafa sóst og sækjast eftir áhrifum hér á landi. Aðferðin sem notuð var við smyglið, að fela amfetamínbasa í flöskum inni í bensíntanki bifreiðar er hins vegar vel þekkt í Eystrasaltslöndunum og Póllandi og talsvert notuð þar.

Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir allt benda til þess að áframhaldandi gæsluvarðhalds verði krafist á föstudaginn, þegar varðhald samkvæmt fyrsta dómsúrskurðinum þar um rennur út.

Lögreglan á nú í samstarfi við Europol og Interpol sem hafa komið henni í samband við lögregluembætti í þeim löndum sem rannsóknin teygir anga sína til. Fyrst um sinn var aðallega unnið með lögreglunni í Þýskalandi, þar sem konurnar hafa ríkisfang, en rannsóknin nær einnig til fleiri landa í Norður-Evrópu.

Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert