Segir tilmælin ómarktæk

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Mbl.is

„Þetta er bara ófær leið. Þessi yfirlýsing Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins er algerlega ómarktæk. Þessar stofnanir geta ekki gefið út slíka einhliða yfirlýsingu og síðan ætlast til þess að almenningur fari eftir því,“ segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í tilefni af þeim tilmælum Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins til fjármálafyrirtækja að taka mið af lægstu óverðtryggðum og verðtryggðum vöxtum Seðlabankans á hverjum tíma við innheimtu á gengistryggðum lánum sem falla undir dóma Hæstaréttar á dögunum.

Vigdís spyr hvers vegna fólk eigi að leggja meira fé inn í fjármögnunarfyrirtækin ef það þarf þess ekki og er í sumum tilfellum orðið skuldlaust eftir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána og á jafnvel fjármuni inni hjá fyrirtækjunum. Hún segist sammála því að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið séu með tilmælum sínum að hvetja fjármálastofnanir til lögbrota.

Hæstarétti skipað fyrir?

„Það er einfaldlega verið að hvetja til lögbrota, alveg augljóslega, og um leið ganga gegn æðsta dómstóli landsins sem hefur úrskurðað mjög afgerandi um þessi mál. Það er alveg ótrúlegt að þessar tvær stofnanir, sem eiga að halda utan um fjármálakerfið í landinu, skuli hvetja til lögbrota með þessum hætti,“ segir Vigdís. „Það má vel færa fyrir því rök að með tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sé verið að tala undir rós og skipa Hæstarétti fyrir að þetta sé sú leið sem sé ákjósanlegast að farin sé þegar þessi mál koma fyrir dómstóla.“

Vigdís segir að framganga Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins veki upp spurningar um það fyrir hverja þessar stofnanir eru að starfa. Það virðist alltaf vera hagur fjármálastofnana sem sé látinn ganga fyrir öllu öðru sama hvað gangi á. „Síðan er svo mikil sóun á fjármunum, bæði af hálfu hins opinbera og almennings, að ríkisstjórnin geri ekki neitt og farið sé að leysa úr öllum málum fyrir dómstólum. Fjármunum sem eru bara hreinlega ekki til staðar,“ segir Vigdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert