„Skynsamlegt og sanngjarnt“

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is

„Hinir nýju forystumenn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins hafa sent út tilmæli um gengistryggðu lánin, hversu með skuli fara þangað til dómstólar úrskurða annað. Annaðhvort séu notaðir lægstu vextir óverðtryggt eða lægstu vextir verðtryggt. Þetta er góð lína og einboðið að lánveitendur og lántakendur fari eftir þessu,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á heimasíðu sinni í dag.

Mörður líkir þessu við venjuleg neytendaviðskipti. Að vísu sé ekki hægt að endurgreiða neytanda þessa gölluðu vöru en hins vegar eðlilegt að láta hann hafa aðra eins vöru í staðinn, annaðhvort verðtryggt lán eða óverðtryggt með hærri vöxtum.

Hann segir að tilmæli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins sé í grundvallaratriðum bæði skynsamleg og sanngjörn, en Mörður hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að breyta ætti gengistryggðum lánum yfir í verðtryggð.

„Nú hefjast auðvitað málaferli, en líklegust og æskilegust lok þeirra eru í þessum dúr. Skelfing hinna gengistryggðu hefur þá linast, og menn geta aftur komið sér að verkum við það annarsvegar að bæta stöðu hinna verst settu og hinsvegar að snúa hjólunum í gang þannig að atvinnuleysi hverfi og kaupmáttur aukist – á leiðinni í Nýja Ísland með lærdóma hrunsins í vegarnesti,“ segir Mörður.

Heimasíða Marðar Árnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert