Fréttaskýring: Tilmælin gefa hagfelldari lyktir en gengistrygging

Næstu afborganir lánþega verða almennt töluvert lægri en ef upprunaleg kjör samninga um gengistryggð lán stæðu, hlíti bankar og fjármögnunarfyrirtæki tilmælunum sem Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið sendu frá sér í fyrradag. Kjör þeirra verða aftur á móti ekki eins góð og ef lagt væri til grundvallar að samningsvextir stæðu óbreyttir og óverðtryggðir en margir lögspekingar hafa hallast að þeirri túlkun á dómnum.

Er þetta meðal niðurstaðna útreikninga sem Nordik fjármálaráðgjöf gerði að beiðni Morgunblaðsins. Þannig getur upphæð næstu afborgunar af láni sem veitt var árið 2007 numið aðeins um þriðjungi af því sem hún hefði verið með gengistryggingu. Aftur á móti leiða tilmælin til tæplega fjórfaldrar afborgunar miðað við að samningsvextir standi án gengistryggingar.

Tilmæli stofnananna fela í sér að miða skal endurútreikning lánanna við vexti Seðlabankans í stað umsaminna vaxta. Þeim er ætlað að gilda þar til Hæstiréttur sker úr um hvort og hvernig skuli endurreikna gengistryggð lán í íslenskum krónum en Hæstiréttur tók af réttarfarsástæðum ekki á því í dómi um ólögmæti gengistryggingar íslenskra lána.

Ekki er um bindandi tilmæli að ræða og hafa forsvarsmenn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins tekið skýrt fram að endanleg úrlausn liggi hjá Hæstarétti eða hjá löggjafanum. Lánveitendur virðast þó ætla að hlíta tilmælunum að meira eða minna leyti hvað varðar þau lán sem víst er að tilmælin ná til.

Haldreipi fyrir lánardrottna

Lánveitendur hafa frá því dómur Hæstaréttar gekk hafnað þeirri túlkun að þar sem rétturinn taldi aðeins ákvæði um gengistryggingu óskuldbindandi standi önnur ákvæði, þar á meðal ákvæði um lága vexti, óhögguð.

Kváðu þeir ekki ljóst hvernig ætti að gera upp lánin þar sem ekki væri tekið á því sérstaklega í dóminum. Brugðu af þessum sökum margir þeirra á það ráð, áður en fyrirmælin voru gefin út, að lýsa því yfir að ekki yrðu sendir út greiðsluseðlar til skuldara fyrr en leyst væri úr óvissu um hvernig lánin skyldu gerð upp. Tilmælin veita lánardrottnum því ákveðið haldreipi svo þeir geti heimt einhverjar afborganir af veittum lánum. Að gengnum dómi Hæstaréttar um endanlegt uppgjör kemur svo í ljós hvort þeir hafa fengið ofgreitt eða ekki.

Það er útbreidd skoðun meðal lögfræðinga og hagsmunasamtaka að þar til dómstólar veiti skýrari svör skuli samningsvextir standa.

Áþekk sennilegri niðurstöðu

Lögspakir sérfræðingar á sviði samninga- og kröfuréttar hafa leitt að því líkur að dómsúrlausn um forsendur uppgjörs lánanna verði ekki ólík þeim sem tilmælin kveða á um.

Byggist það á því að með því að gengistryggingin fellur niður standi eftir kjör sem seint hefði verið samið um í upphafi. Þau megi jafnvel telja beinlínis ósanngjörn í garð lánveitenda en í 36. gr. samningalaga er heimild til að breyta samningum eftir á, teljist þeir ósanngjarnir. Þeirri heimild hefur þó verið beitt afar varfærnislega í dómaframkvæmd og sjaldan eða aldrei til hagsbóta fyrir fyrirtæki á kostnað neytenda.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert