Samráðsvettvangur nauðsynlegur

Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis.
Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis. mbl.is/Ásdís

„Við vildum fyrst og fremst fá rökstuðninginn fyrir tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og fengum hann. Það er annars vegar um að ræða efnahagslegar ástæður og hins vegar lögfræðilegar,“ segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður viðskiptanefndar Alþingis.

Sameiginlegur fundur var haldinn í morgun með viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd Alþingis um dóma Hæstaréttar á dögunum um gengistryggð lán. Á fundinn voru boðaðir seðlabankastjóri, viðskiptaráðherra, fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu, Talsmaður neytenda, fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna og fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Lilja segir efnahagslegu ástæðurnar sem fulltrúar Seðlabankans hafi gefið upp, sem um leið séu líka lögfræðilegar, byggjast á því fyrst og fremst hversu margir lánasamningar falli undir dóma Hæstaréttar. Hún sagði Seðlabankann hafa áhyggjur af því að of margir túlki dómana sér í hag og kunni síðan að lenda í greiðsluerfiðleikum síðar ef niðurstaða dómstóla verður á annan veg varðandi vaxtakjör og eðli lánasamninga.

Fólk sé við öllu búið

Hún segir að bæði sé t.a.m. ekki ljóst í sumum tilfellum hvort um hafi verið að ræða gengistryggð lán eða erlend lán, þ.e. hvort greiddur hafi verið út erlendur gjaldeyrir til lántakanda eða íslenskar krónur, og síðan sé sá möguleiki alltaf fyrir hendi að Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að miðað eigi vexti gengistryggðra lána við lægstu vexti Seðlabankans hverju sinni. Fólk verði að gera ráð fyrir því að sú staða gæti komið upp.

Lilja gagnrýnir mjög þá þróun sem átt hefur sér stað hér á landi undanfarin misseri þar sem ætlast er til þess að almenningur fái réttmæta skuldaaðlögun í gegnum dómstóla á meðan ríkisvaldið heldur að sér höndum í þeim efnum. Þetta sé meira í anda þess sem þekkist í Bandaríkjunum en t.a.m. á hinum Norðurlöndunum. Hún segir að þessi þróun rími illa við þá staðreynd að hér séu vinstriflokkar við völd.

Hún sagði að fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hefði verið spurður að því á fundinum í morgun hvort hann gerði athugasemd við almenna niðurfærslu lána og svaraði hann því til að sá möguleiki væri ekki „efnahagslega hagkvæmur“. Aðeins ætti að grípa til slíkra leiða í tilfelli þeirra sem nauðsynlega þurftu á þeim að halda en öðrum ekki.

Þá sagði hún ljóst að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hefðu t.a.m. borið tilmæli sín til fjármálafyrirtækja undir fulltrúa AGS áður en þau voru gerð opinber. Hún ítrekaði þó að ákvörðunin hafi eftir sem áður að sjálfsögðu verið tekin af stofnununum tveimur.

Úrskurður nauðsynlegur

„Síðan vildum við líka fá mat á högginu sem talað hefur verið um að fjármálakerfið verði fyrir af völdum þessara dóma. En það eru ekki komnar endanlegar tölur um það, m.a. vegna þess að þetta eru a.m.k. um 20 flokkar lána og það þarf að fara í gegnum alla þessa flokka til þess að skera úr um til hvaða flokka þeir ná,“ segir Lilja.

Lilja segir að í lok vikunnar fái nefndirnar væntanlega í hendurnar nákvæmara mat á þessu. Þá verði um að ræða mat á því hver áhrifin á hagkerfið verði með mismunandi niðurstöðum eftir því hversu margir lánasamningar kunni að falla undir dóma Hæstaréttar. En það sé ákveðin forsenda fyrir öllu málinu varðandi gengistryggðu lánin að skorið verði endanlega úr um það hvaða lán falli undir dóma Hæstaréttar.

Lilja segir nauðsynlegt að flýta niðurstöðu Hæstaréttar eins og hægt sé í þeim efnum þó dómskerfið verði eðlilega að fá þann tíma sem það þurfi til þess að afgreiða málið. Eins sé ljóst að hennar áliti að það þurfi að samþykkja lög næsta haust um hópmálsóknir. 

„Ég tel líka að komið hafi fram þörf fyrir samráðsvettvang þar sem allir hagsmunaaðilar, s.s. fjármálafyrirtækin og Hagsmunasamtök heimilanna, komi saman til þess að ræða hvernig hægt sé að finna heildarlausn á skuldavanda heimilanna sem ekki eykur ójöfnuðinn eins mikið og dómstólaleiðin mun gera og stuðlar að sátt,“ segir Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert