Viðræður hefjast í næstu viku

Fundað í ráðuneytinu. F.v.: Invar Sverrisson, aðstoðarmaður ráðherra, Kristján Möller …
Fundað í ráðuneytinu. F.v.: Invar Sverrisson, aðstoðarmaður ráðherra, Kristján Möller samgönguráðherra, Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri og fulltrúar lífeyrissjóðanna: Pálmi Kristinsson, Helgi Magnússon, Arnar Sigurmundsson og Hrafn Magnússon. Ljósmynd/jt

Formlegar viðræður milli lífeyrissjóðanna og ríkisins um fjármögnun stórra sjálfbærra samgönguverkefna hefjast í næstu viku. Þetta var ákveðið á fundi fulltrúa lífeyrissjóðanna og samninganefndar ríkisins í samgönguráðuneytinu í dag. Um er að ræða framkvæmdir fyrir um 30 milljarða á næstu árum.

Náist samkomulag um vaxtakjör, tryggingar, endurgreiðslutíma og fleira er talið mögulegt að framkvæmdir geti hafist þegar í haust. Gert er ráð fyrir að þungi framkvæmdanna verði á árunum 2011 - 2014.

Af hálfu ríkisins sátu fundinn fulltrúar úr fjármálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og Vegagerðinni undir forystu Kristjáns Möller, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.

Arnar Sigurmundsson, formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða (LL), sagði að aðgerðahópur lífeyrissjóðanna hafi fundað fyrr í dag og ákveðið að fara í viðræðurnar.

Valin var viðræðunefnd af hálfu Landssamtaka lífeyrissjóða. Í henni eru Davíð Rudólfsson, Gylfi Jónasson og Tómas N. Möller.  Með nefndinni mun Pálmi Kristinsson, verkfræðingur, starfa sem sérfræðingur. Þá munu Arnar Sigurmundsson og Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri LL sitja fundi viðræðunefndarinnar eftir því sem tök eru á og málin ganga fram.

Rætt um margar sjálfbærar framkvæmdir

Viðræðurnar munu snúast um hugsanlega aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun stórra framkvæmda í samgöngumálum. Alþingi samþykkti 16. júní sl. lög um stofnun opinbers hlutafélags um framkvæmdir við tvöföldun hluta Suðurlandsvegar, Vesturlandsvegar og að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar við Hafnarfjörð. Einnig mun vera rætt um nýja brú yfir Ölfusá við Selfoss. 

Fyrrgreindar framkvæmdir og gerð Vaðlaheiðarganga er flestar að finna í stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá 25. júní 2009.

Arnar sagði gert ráð fyrir því að framkvæmdirnar sem um ræðir geti verið sjálfbærar. Hugmyndin er að ríkið afli tekna til að endurgreiða lán lífeyrissjóðanna, t.d. með veggjöldum. 

„Það sem við þurfum, ef við náum samkomulagi um ávöxtun, endurgreiðslutíma og annað, er fyrst og fremst að góðar tryggingar séu fyrir endurgreiðslunni. Hún kæmi þá af veggjöldum einhvers konar,“ sagði Arnar. „Þetta er gríðarlega mikið verkefni.“

Vaðlaheiðargöng voru ekki rædd á fundinum í dag. Arnar sagði ekkert því til fyrirstöðu að fulltrúar lífeyrissjóðanna hitti fulltrúa félags um Vaðlaheiðargöng til viðræðna um fjármögnun. Í félagi um Vaðlaheiðargöng er ríkið með meirihlutaeign á móti Norðlendingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert