Ólöglegir innflytjendur njóta aðstoðar frá Íslandi

Grunsemdir hafa vaknað að á Íslandi séu einstaklingar sem auðveldi ólöglegum innflytjendum og hælisleitendum, sem hafi fengið synjun í öðrum löndum, að komast hingað til lands, jafnvel með það í huga að komast héðan vestur um haf. Þetta kemur fram í ársskýrslu ríkislögreglustjóra fyrir árið 2009.

Þar segir einnig að alþjóðadeild ríkislögreglustjóra sjái um Eurodac, fingrafaragagnagrunn Schengen-ríkjanna vegna hælisleitenda fyrir hönd Útlendingastofnunar. Í þeim gagnagrunni megi oftar en ekki finna þá einstaklinga sem hér á landi sæki um hæli sem sýni að þeir hafa áður fengið hælismeðferð í öðru Schengen-ríki.

Þá kemur fram að útlendingamál séu sem fyrr umfangsmikill þáttur í starfsemi alþjóðadeildar sem sjái m.a. um að leita upplýsinga um erlenda brotamenn, t.d. sakaferil þeirra og annað það sem að gagni megi koma fyrir lögregluyfirvöld. Þá séu flutningar á brottvísuðum brotamönnum, sem lokið hafi afplánun, hluti af starfseminni.

Þá segir að Íslandi muni taka við formennsku í PTN-samstarfinu (lögreglu og tollgæslu á Norðurlöndum) í lok næsta árs. Það felur í sér að halda utan um og skipuleggja fundi innan samstarfsins auk þess sem Ísland sinni formennsku á fundum, komi að útgáfu fundargerða og haldi utan um gögn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert