Sér eftir Lúðvík

Guðmundur Rúnar tekur við lyklunum að skrifstofum bæjarstjóra úr hendi …
Guðmundur Rúnar tekur við lyklunum að skrifstofum bæjarstjóra úr hendi Lúðvíks í morgun.

„Það var gengið frá minni ráðningu á bæjarráðsfundi áðan,“ segir Guðmundur Rúnar Árnason, sem hefur tekið við starfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar af Lúðvík Geirssyni, sem lét af störfum í dag.

Guðmundur segir að Lúðvík hafi lesið upp yfirlýsingu þess efnis á fundinum og jafnframt tilkynnt að hann myndi ekki ganga frá þeim ráðningarsamningi sem hafi legið fyrir. „Það var ekki búið að ganga frá neinum slíkum samningi,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Lúðvík besti kosturinn

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að heppilegasti kosturinn fyrir Hafnfirðinga að Lúðvík Geirsson væri bæjarstjóri og gegndi því starfi áfram hér á þessum erfiða tíma. Hann er búinn að vera hér í átta ár og hefur leitt bæjarstjórnina eftir efnahagshrunið í erfiðum verkum og náð í því feykilega góðum árangri. Ég taldi, og tel í rauninni ennþá, að það hefði verið mikill kostur að ef við hefðum notið hans starfskrafta áfram,“ sagði Guðmundur þegar hann var spurður hvers vegna hann, sem var oddviti Samfylkingarinnar í sveitastjórnarkosningum, hefði ekki tekið strax við sem bæjarstjóri að loknum kosningum.

Spurður út í þau mótmæli sem hófust eftir að Lúðvík settist aftur í stól bæjarstjóra, þrátt fyrir að hafa ekki náð kjöri í bæjarstjórn, segir Guðmundur: „Hann vildi ekki leggja það á bæjarbúa, sjálfan sig, fjölskylduna, bæjarstjórnina og meirihlutann að það væri einhver óvissa um hans umboð og stöðu. Hann ákvað að gera þetta svona, þannig að það væri ekkert yfirhangandi. Ég skil hans ákvörðun, en ég hefði kosið að hann hefði gengt þessu starfi áfram,“ segir Guðmundur.

Mörg erfið verkefni framundan

Guðmundur segir að bæjarstjórn Hafnarfjarðar sé og þurfi að takast á við mörg erfið verkefni í eftirmála bankahrunsins. „Við höfum notið leiðsagnar Lúðvíks og undir hans stjórn náð gríðarlegum árangri. Ég mun auðvitað leggja mig fram við að halda þeim verkefnum áfram,“ segir hann.

„Ég mun leitast við að hafa hann [Lúðvík] sem fyrirmynd í mínum störfum. Ég veit að ég mun aldrei geta fyllt skarðið hans, og nýjum einstaklingum fylgja alltaf einhverjar áherslubreytingar.“

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert