15 mánaða fangelsi fyrir vændi

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 32 ára gamla konu, Catalinu Mikue Ncogo, í 15 mánaða fangelsi fyrir milligöngu um vændi, líkamsárás og brot gegn valdstjórninni. Konan var hins vegar sýknuð af ákærðu fyrir mansal.

Catalina var dæmd í 2½ árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun desember sl. fyrir hagnýtingu vændis og fíkniefnabrot en Hæstiréttur þyngdi þann dóm í 3½ ár. Dómurinn nú er hegningarauki við þann dóm.

Tveimur dögum eftir að héraðsdómur kvað dóminn upp í desember var Catalina handtekin og úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna gruns um vændisstarfsemi og fleiri brot. Hefur hún setið í gæsluvarðhaldi síðan.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í dag, að Catalina hefði haft tekjur af vændi fjögurra erlendra kvenna, sem komu hingað til lands. Hún var hins vegar sýknuð af ákærðu fyrir mansal þar sem ekki þótti sannað, gegn neitun Catalinu, að stúlkurnar væru fórnarlömb mansals.

Ellefu karlmenn voru ákærðir fyrir að kaup á vændisþjónustu af konunum. Tveir þeirra hafa þegar verið dæmdir til að greiða sekt en talið er að dómar í máli hinna 9 verði kveðnir upp í haust. 

Catalina var einnig fundin sek um að hrækja á lögreglumann og fyrir  líkamsárás í desember 2008 en til átaka kom milli hennar og annarrar konu í stigagangi í fjölbýlishúsi þar sem þær bjuggu báðar. Var Catalina dæmd til að greiða konunni 250 þúsund krónur í bætur.  Hún var einnig sakfelld fyrir að slá aðra konu í höfuðið.

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að Catalina sé sakfelld fyrir að hafa haft með höndum umfangsmikla vændisstarfsemi sem hún hafði viðurværi sitt af, tvær líkamsárásir og ítrekað brot gegn valdstjórninni. Hún eigi sér engar málsbætur og ásetningur og brotavilji hennar hafi verið einbeittur hvað varðar vændisstarfsemina. 

Dómurinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert