Vill fund um Magma í iðnaðarnefnd

Orkuver HS Orku í Svartsengi.
Orkuver HS Orku í Svartsengi. mbl.is/Ómar

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur óskað eftir því að boðað verði til fundar í iðnaðarnefnd Alþingis vegna þeirra upplýsinga sem  nú liggja fyrir um samskipti iðnaðarráðuneytisins og Magma Energy.

Haft var eftir forstjóra Magma á Íslandi í fréttum Útvarpsins í kvöld, að iðnaðarráðuneytið hefði ráðlagt fyrirtækinu að stofna dótturfélag í Svíþjóð til að geta keypt hlut í HS Orku. Nefnd um erlendar fjárfestingar hér á landi hefur í tvígang úrskurðað að Magma Energy megi kaupa HS Orku í gegnum dótturfélag sitt í Svíþjóð.

Margrét óskar eftir því að iðnaðarráðherra svari fyrir á hvaða hátt ráðuneyti hennar veitti Magma Energy ráðgjöf við kaupin á HS Orku, hvenær þau samskipti fóru fram og hver átti frumkvæðið að þeim.

Þá óskar hún eftir því að bæði fulltrúar minni- og meirihluta nefndar um erlenda fjárfestingu komi fyrir nefndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert